Greiningardeild Kaupþings banka spáir því að samanlagður hagnaður félaga í afkomuspá þeirra nemi 55,4 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2007.  Það er rúmlega 600% aukning frá öðrum ársfjórðungi 2006 en þá nam hagnaður félaganna um 7,6 milljörðum króna. Skýrist hækkunin af væntingum um aukinn hagnað hjá fjármálafyrirtækjunum sex, en Greiningardeild gerir ráð fyrir að hann verði um 52 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2007. Það er aukning um 1.215% frá sama tíma í fyrra.

Helsti munurinn liggur í spá um hagnað hjá Exista, FL Group og Tryggingamiðstöðinni en þessi félög skiluðu tapi á öðrum ársfjórðungi 2006. Þá eru væntingar um meiri hagnað hjá Landsbankanum og Straumi-Burðarás en á sama tíma í fyrra.

Aftur á móti gera þeir ráð fyrir að hagnaður rekstrarfélaganna dragist saman um 37% á milli ára. Það eru helst væntingar um minni hagnað hjá Icelandair og tap hjá Eimskip, Alfesca og Össuri.