Cristina Fernández forseti Argentínu hefur sent argentínska þinginu frumvarp um þjóðnýtingu á 51% hlut í olíufyrirtækinu YPF. Ef frumvarpið verður samþykkt mun spænska fyrirtækið Repsol , sem á 57% hlut í YPF tapa gríðarlegum fjármunum. Verðmæti þjóðnýtta hlutarins nemur um 5 milljörðum Bandaríkjadala, sem svarar 615 milljörðum króna.

Ríkisstjórn Spánar kallaði sendiherra sinn í Buenos Aires heim í dag vegna málsins. José Manuel Garcia-Margallo sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að Spánn muni beita Argentínu þvingunum og verða þær kynntar á allra næstu dögum. Einnig muni landið óska eftir aðstoð Evrópusambandsins í málinu.

Ríkisstjórn Fernández segir að ástæða þjóðnýtingarinnar sé sú að YPF hafi ekki fjárfest nægilega í olíuiðnaðnum og landið þyrfti þar af leiðandi að flytja mun meiri olíu inn en ella. Andstæðingar hennar segja hins vegar að orkuáætlun ríkisstjórnarinnar hafi fullkomnlega mistekist.

Nánasti bandamaður Cristinu Fernández er Hugo Chavez forseti Venesúela sem hefur þjóðnýtt mörg helstu fyrirtæki landsins.