Silicon Valley Bank er fallinn og hefur Tryggingarsjóður innistæðueigenda í Bandaríkjunum, FDIC, tekið yfir bankann. Um er að ræða stærsta fall bandarísks banka frá alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008.

Í tilkynningu frá FDIC segir að tryggðir innistæðueigendur muni fá fullan aðgang að innistæðum sínum ekki seinna en á mánudagsmorgni 13. mars næstkomandi. Þá fá ótryggðir innistæðueigendur fyrirframgreiddan arð í næstu viku.

Silicon Valley Bank er með sautján útibú bæði í Kaliforníu og Massachussets. Í tilkynningunni segir að öll útibúin muni opna að venju eftir helgi.

SVB var með eignir upp á 209 milljarða dala í lok árs 2022. Þá námu innlán bankans 175 milljörðum dala.