Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkti 30.desember sl. heildarstefnu fyrir fyrirtækið. Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður OR, segist ánægður með hvernig til hefur tekist.

[Spurning blaðamanns] Nú hefur stjórn OR loks komið sér saman um hvert fyrirtækið á að stefna. Er það ekki ábyrgðarleysi af hálfu stjórnar OR að koma sér ekki saman um heildarstefnu fyrr en nú, þegar a.m.k. margir vilja meina að staða OR sé fjárhagslega óviðunandi? Hefðu kjörnir fulltrúar ekki átt að leggja OR skýrari línur hvað rekstur og framtíðarsýn varðar?

"Ég vil nú ekki kalla það ábyrgðarleysi. Ég er hins vegar ánægður með hvernig til hefur tekist varðandi stefnumótunarvinnuna og það tókst bærilega að skapa um hana þverpólitíska sátt. OR var falið það á eigendafundi árið 2008 að fara í stefnumótunarvinnuna. Hún hefði vissulega átt að hefjast fyrr en ég er ánægður með þá niðurstöðu sem nú er komin fram og fyrirtækið getur unnið eftir. Það er auðvelt að vera vitur eftir á og segja að borgarfulltrúar hefðu átt að haga málum með öðrum hætti, hvað málefni OR varðar, en í stórum dráttum þá tel ég OR vera sterkt og gott fyrirtæki með mikla framtíðarmöguleika. Það er mitt mat að fjarlægðin milli kjörinna fulltrúa og stjórnar þurfi að vera meiri. Það er betra fyrir fyrirtækið. Ég tel óheppilegt að borgarráðsmenn séu einnig stjórnarmenn þar sem borgarráð á að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækisins fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Það er aldrei gott ef menn sitja beggja vegna borðsins, einkum þegar deilur koma upp um einstakar ákvarðanir eða stefnumörkun. Það þarf að skýra betur, og almennt, hvernig eigendur fyrirtækisins ætla að hafa eftirlit með því."

Ítarlegt viðtal er við Guðlaug í Viðskiptablaðinu í dag, þar sem farið er ofan í fjáhagsstöðu OR og framtíðarmöguleika fyrirtækisins.