Öll stjórn Barclays býður sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í bankanum á næsta ársfundi bankans sem verður haldinn í apríl næstkomandi. Í stjórninni sitja fjórir stjórnendur innan bankans og síðan þrettán aðrir. Enginn stjórnenda bankans mun þiggja bónusgreiðslur af nokkru tagi á þessu ári, að því er kom fram í tilkynningu frá Barclays í dag.

Barclays fékk nýlega til liðs við sig fjárfesta frá Mið-Austurlöndum sem munu kaupa forgangshlutabréf í bankanum fyrir þrjá milljarða punda. Venjulegum hluthöfum verður síðan gert kleift að kaupa 250 milljónir punda af þeirri eign. Þessi leikur Barclays hefur mætt nokkurri andstöðu ýmissa, enda ber þessi aðgerð nokkurn kostnað fyrir almenna hluthafa vegna þynningar hlutafjár.

Talið er að sú ákvörðun stjórnar Barclays að bjóða sig aftur fram sem heild geti vakið óánægju fjármálaeftirlitsins í Bretlandi, enda mikið uppnám í svo stóru hlutafélagi og fjármálafyrirtæki óæskilegt á tímum sem þessum.