Sátt um stöðugleika og hóflegar nafnlaunahækkanir virðist að engu orðin eftir að samningar á milli lækna og ríkis voru undirritaðir. Útlit er fyrir harðari kjarabaráttu en undanfarin ár, láti menn kné fylgja kviði. Seðlabankinn hefur varað við því að stöðugleiki í hagkerfinu þoli tæplega meira en 4% nafnlaunahækkanir en Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir „algjörlega útilokað að slík niðurstaða verði.“

„Það kemur ekki til greina að almennt launafólk sem er með lægstu tekjurnar í landinu eigi að axla þessa ábyrgð á meðan hópar eins og læknar fái 400.000 krónur í launahækkun. Það er nú meira heldur en kennarar fá borgað yfirhöfuð,“ segir Gylfi og bendir á að læknar séu hálaunastétt með laun sambærileg við forstjóra, sem séu gjarnan kölluð ofurlaun í almennri umræðu. „Mér finnst það ekki vera neitt minni ofurlaun þó að þetta séu læknar. Staðan er grafalvarleg.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir talsmáta Gylfa og annarra í verkalýðshreyfingunni engin áhrif hafa á áform stjórnvalda. „Það hefur ekkert breyst og við horfum bara áfram á að viðhalda stöðugleikanum. Ég einfaldlega neita að trúa því að það séu til talsmenn innan verkalýðshreyfingarinnar sem vilja fórna stöðugleikanum sem náðst hefur,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .