Stóriðjufyrirtæki greiddu að meðaltali 19 dali á hverja megavattstund sem þau keyptu af frá Landsvirkjun á árinu 2009. Þetta var tilkynnt á aðalfundi fyrirtækisins rétt í þessu, en hann stendur nú yfir á Grand hótel. Landsvirkjun hefur til þessa ekki gefið upp söluverð á raforku til stærstu viðskiptavina sinna, sem eru álframleiðendur í landinu.

Til samanburðar þá greiddu stóriðjufyrirtæki 30 dali á hverja megavattstund árið 2008. Á árinu 2010 er áætlað að verðið verði 25 dollarar. Sveiflurnar skýrast af breytingum á heimsmarkaðsverði á áli, en þær eru bundnar inn í samninga Landsvirkjunar um sölu á raforku til stóriðju.

Landsvirkjun tilkynnti í febrúar að fyrirtækið myndi gefa upp ítarlegri upplýsingar um orkuverð til viðskiptavina sinna á aðalfundinum.

Viðskiptablaðið greindi frá því undir lok árs í fyrra að álframleiðendur hefðu greitt Landsvirkjun um 30 dollara á megavattstund af rafmagni á árinu 2008. Þetta mátti sjá út úr gögnum Landsvirkjunar og Orkustofnunar. Yfirmaður tæknimála hjá Verne Global lét hafa eftir sér í viðtali á dögunum að fyrirtækið myndi greiða um 40 dollara á hverja megavattstund af rafmagni.