Systurfélag Frumherja hf. í Noregi hefur keypt dráttabílafyrirtækið Sæter að því er kemur fram í frétt á heimasíðu Frumherja.

Viking redningstjenste í Noregi er systurfélag Frumherja hf. og rekur það bílabjörgunar- og vegaþjónustu fyrir bifreiðaumboð, tryggingafélög og einstaklinga í Noregi.

Þjónustan er framkvæmd af 154 dráttarbílafyrirtækjum víðsvegar um Noreg sem starfa í verktöku fyrir Viking. Nýlega réðst Viking í kaup á stærsta dráttarbílafyrirtækinu í þjónustuneti félagsins.

Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda í Noregi sem nú eru með málið til skoðunar.

Fyrirtækið sem keypt er heitir eins og áður sagði Sæter og starfar í Osló og nágrenni. Dráttarbílafloti félagsins telur 28 bíla af hinum ýmsu stærðum og gerðum. Félagið sinnir að jafnaði um 35 þúsund útköllum árlega. 25 manns starfa hjá Sæter.

Kaup Viking á Sæter styrkja fyrirtækið enn frekar í harðri samkeppni á sínu sviði í Noregi. Jafnframt skapa þau tækifæri fyrir Viking til að veita viðskiptavinum sínum enn betri þjónustu en áður. Þá eru samlegðaráhrifin af kaupunum umtalsverð segir í fréttinni.