Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ríkisstjórnina opna fyrir aðkomu að komandi kjarasamningum í anda lífskjarasamninganna svokölluðu frá 2019 – svo fremi sem það samræmist stjórnarsáttmála hennar og efnahagsstefnu – en lítið sé til skiptanna þessa dagana hjá ríkinu, sem sé rekið með mjög miklum halla.

„Staðreyndin er sú að ríkið er að taka lán fyrir laununum í dag. Við erum með hátt í 200 milljarða halla á fjárlögum. Ég teldi skynsamlegt að næstu lífskjarasamningar myndu einblína á að halda vöxtum lágum, og ég trúi ekki öðru en að samtalið snúist um það að skipta því sem er til skiptanna, en ekki að reyna að taka meira út en innistæða er fyrir.“

Óraunhæft að útrýma hallanum á einu bretti
„Nú erum við að setja saman fjármálaáætlun og við höfum verið með skýr markmið um að ríkið sé ekki að auka eftirspurn í hagkerfinu. Við erum að reyna smám saman að vinna niður hallann og beita aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu. Þetta skiptir máli.“

Halli á rekstri ríkissjóðs sé vissulega enn mjög mikill, en ekki þýði að horfa einungis á stöðu hans í dag, heldur skipti öllu máli hvernig hann þróist frá einu ári til annars. „Það er ekki raunhæft að loka svona stóru fjárlagagati á einu eða tveimur árum, og það gæti orðið til mikils tjóns fyrir alla að reyna það.“

„Það sem við erum að leggja áherslu á er að höggva hann niður smám saman. Með því erum við að auka aðhaldið. Það hefur gengið vonum framar fram á þetta ár og ég er bjartsýnn á að sú þróun haldi áfram og við náum að vinna hann hraðar niður en spáð hefur verið.“

Nánar er rætt við Bjarna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .