Deilur hafa sprottið upp milli símafyrirtækjanna Nova og Tal eftir að Sigmar Vilhjálmsson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Tals skrifaði grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann staðhæfir að sá sem hringir í Nova símanúmer þurfi að greiða fyrir símtalið þó ekki sé svarað í símann.

Í tilkynningu frá Nova kemur fram að þessi staðhæfing Sigmars sé röng.  Gjaldtaka hefjist aðeins þegar svarað er í símann líkt og hjá öðrum símafyrirtækjum á Íslandi, hvort heldur sem biðtónninn er tónlist eða ekki.

„Sigmar Vilhjálmsson hefur starfað á íslenskum fjarskiptamarkaði í um eitt ár. Manni í hans stöðu ætti að vera  ljóst að Vinatónaþjónusta Nova, sem hefur verið í boði síðan 1. desember 2007, virkar alls ekki með þeim hætti sem hann lýsir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag,“ segir í tilkynningu Nova.

Þá hefur Nova í ljósi þessa ákveðið að kæra Tal fyrir skaðleg og meiðandi ummæli.

„Tal reynir með þessum hætti að koma af stað neikvæðri og skaðlegri umræðu um þjónustu Nova, sem á við engin rök að styðjast,“ segir í tilkynningu Nova.

Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag skrifa Sigmar:

„Nova býður viðskiptavinum sínum að hafa tónlist í símanum sínum í stað hringitóns. En fáir vita að þegar hringt er í númer hjá Nova og tónlist heyrist í stað hefðbundins hringitóns, þá hefst gjaldtaka um leið fyrir þann sem hringir. Ef viðkomandi svarar ekki, en tónlistin heyrist, þá er engu að síður tekið gjald fyrir það líkt og símtal hafi átt sér stað. Því ber að varast að hringja oft í viðskiptavini Nova, ef þeir eru staddir í bíó eða sundi og geta ekki svarað. Því það kostar peninga.“

Sigmar sendi fjölmiðlum tilkynningu fyrr í dag þar sem hann segir að nú hafi komið í ljós að þarna er um mistök að ræða. Nova rukki ekki fyrir símtöl þar sem ekki næst í viðmælandann og harmar hann mjög að hafa fullyrt það í greininni.

„Ég fagna samkeppni frá Nova og treysti að fyrirtækið hafi sömu markmið og Tal, sem er að auka samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði,“ segir Sigmar í tilkynningu sinni.

„Ég vildi leiðrétta þetta strax svo það komi skýrt fram. Og jafnframt hindra að þessi leiðu mistök slái rýrð á greinina í heild. Ég stend að öðru leyti við greinina eins og hún birtist.“