Þorgeir Baldursson
Þorgeir Baldursson
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Þorgeir Baldursson fæddist 25. september 1942 í Reykjavík, hann útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands 1960 og stundaði síðar nám í Den Grafiske Højskole í Danmörku. Hann hóf svo störf í Odda 1965, fyrst sem framleiðslustjóri og síðar forstjóri frá 1982. Hann er nú forstjóri Kvosar sem er móðurfélag Odda en það var stofnað í kringum kaup Odda á Gutenberg og Kassagerðinni. Oddi hefur einnig farið í fjárfestingar erlendis, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum en einbeitir sér nú að því að snúa við rekstri félagsins hér á landi.

Stjórn Landsbankans

Þorgeir Baldursson sat í stjórn Baugs þegar það var almenningshlutafélag og var meðal annars kallaður til yfirheyrslu vegna þess. Þorgeir Baldursson sagði sig að lokum úr stjórn Baugs vorið 2003 vegna trúnaðarbrests í stjórninni.

Þorgeir Baldursson settist í stjórn Landsbankans árið 2003 eftir einkavæðingu og sat í stjórn bankans þar til yfir lauk. Þorgeir átti hlut í Landsbankanum, mest tæpa 1,5 milljón hluti sem var tæplega 60 milljóna króna virði þegar best lét en þessi bréf eru verðlaus í dag. Þorgeir hefur verið stjórnarformaður SPFjármögnunar frá stofnun fyrirtækisins árið 1995. Þorgeir sat í stjórn SPRON frá 1996 til 2003 þegar hann hætti í stjórn vegna setu sinnar í stjórn SP-Fjármögnunar. Með kaupum Spron á Frjálsa fjárfestingarbankanum í lok árs 2002 var SPRON komið í samkeppni við SP-Fjármögnun og Þorgeiri fannst ekki fara saman að vera stjórnarmaður í SPRON og jafnframt stjórnarformaður SP-Fjármögnunar eftir að fyrirtækin tvö voru komin í samkeppni.

Starfaði í Sjálfstæðisflokknum

Þorgeir hefur verið iðinn í félagsstörfum en hann er í Rótarýklúbbi Reykjavíkur og hefur starfað fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann var formaður fjármálaráðs flokksins en hætti sem slíkur um 2006, rétt áður en lög voru sett um styrki til stjórnmálaflokka. Þorgeir var einnig ræðismaður Spánar á Íslandi um árabil. Þorgeir Baldursson er einnig einn af eigendum Þórsmerkur sem er eignarhaldsfélag Morgunblaðsins.