Þingsályktunartillaga Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, hefur verið sett á dagskrá Alþingis í dag. Hún er þriðji liðurinn á dagskránni. Tillagan felur i sér að greidd verði atkvæði um framhald ESB-viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fyrri tveir dagskrárliðirnir eru annars vegar skýrsla Hagfræðistofnunar um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Sú skýrsla var unnin fyrir utanríkisráðherra eins og kunnugt er. Hún hefur nú verið til umræðu í tvo daga. Hins vegar þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að afturkalla umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þingflokkur VG lagði í gær fram nýja tillögu í ESB-málinu sem flokkurinn vonast til þess að verði til að sætta sjónarmið. Sú tillaga felur í sér að áfram verði hlé á aðildarviðræðunum en á seinni hluta yfirstandandi kjörtímabils fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli viðræðum áfram.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í gær að hún gæti ekki stutt þingsályktunartillögu utanríkisráðherra óbreytta.