Seðlabankinn gerði of lítið og brást of seint við of litlu aðhaldi í opinberum fjármálum á árunum fyrirhrun. Aðgerðir hins opinbera, útgjaldaaukning, skattalækkanir, stóriðjufjárfestingar af frumkvæði hins opinbera og breytingar á húsnæðislánamarkaði sem auðveldaði lánsfjárdrifna einkaneyslu verulega, leiddu til þess að þjóðarbúskapurinn þandist út. Þegar ofvaxið bankakerfið bættist við urðu áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar mikil.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í fyrirlestri Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, sem hann hélt í gær hjá Lionsklúbbunum Fjölni og Ægi í Reykjavík. Erindið bar yfirskriftina Efnahagsþróunin á Íslandi í kjölfar fjármálakreppunnar.

Horfur hafa versnað

Þórarinn sagði m.a. að ólíkt öðrum iðnríkjum hafi verið mikil verðbólga og háar verðbólguvæntingar reynst viðvarandi vandi hér á landi í kjölfar kreppunnar. Það dragi úr svigrúmi til lækkunar vaxta og þannig úr getu peningastefnunnar til að styðja við þjóðarbúskapinn.

Þá sagði Þórarinn horfur hafa versnað hér með töfum á stóriðjufjárfestingu og versnandi alþjóðahorfum en talið sé að samdráttur verði í sex iðnríkjum að meðaltali á árunum  2012-14 og að í 6 til viðbótar verði meðalhagvöxtur undir 1% (þ.e. 12 ríki með meðalhagvöxt 2012-14 undir 1%). Þetta er þvert á spár en fyrir tveimur árum hafi ekki verið gert ráð fyrir samdrætti í neinu iðnríki og innan við 1% hagvexti í einu ríki. Fram kom í máli hans að gert sé ráð fyrir því að efnahagsbatinn hér verði hægari en gert hafi verið ráð fyrir.

Erindi Þórarins