*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 23. ágúst 2018 18:02

TM tapaði 140 milljónum

TM tapaði 140 milljónum á öðrum ársfjórðungi vegna stórra tjóna, aukins tjónþunga og þungra verðbréfamarkaða.

Ritstjórn
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Haraldur Guðjónsson

TM tapaði 140 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi, að því er fram kemur í tilkynningu félagsins til kauphallarinnar. Stór tjón, aukinn tjónþungi almennt, og þungir verðbréfamarkaðir eru sögð helstu ástæður lakrar afkomu.

Samsett hlutfall var 109,9%, nokkuð hærra en 105,6% árið áður, og töluvert hærra en þau 100% sem rekstrarspá félagsins hafði gert ráð fyrir, en þann 12. júlí síðastliðinn tilkynnti félagið að vegna aukningar í tjónakostnaði gerði félagið ráð fyrir samsettu hlutfalli um 109% á fjórðungnum.

Verri afkoma af vátryggingastarfsemi á fjórðungnum og fyrri helmingi ársins er sögð skýrast einkum af hærra tjónshlutfalli í eignatryggingum, ábyrgðartryggingum og skipatryggingum. Eigin iðgjöld fyrri árshelmings vaxa um 5,7% á milli ára á meðan eigin tjón hækka um 10,8%.

„Afkoma TM á öðrum ársfjórðungi var lakari en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi árs. Stór tjón ásamt auknum tjónþunga almennt setja mark sitt á uppgjörið.“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM í tilkynningunni. „Ávöxtun fjárfestingaeigna TM á öðrum ársfjórðungi var 1,2% sem verður að teljast ákveðinn varnarsigur í erfiðu árferði. Rekstrarspá fyrir næstu fjóra ársfjórðunga hefur verið uppfærð og gerir félagið nú ráð fyrir að samsett hlutfall verði 97% til næstu 12 mánaða og að ávöxtun fjárfestinga verði 8,3%.“