Það má búast við átakaþingi á komandi kosningavetri en Alþingi kemur saman í dag í fyrsta sinn eftir sumarfrí. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, að hún vænta ágætrar þátttöku við þingsetningu og treysti á að eggjakast endurtaki sig ekki, enda hafi slík framganga ekki verið mótmælendum til framdráttar.

Þingmenn hafa ekki allir verið sáttir við þá ákvörðun forsætisnefndar að hafa óbreytt fyrirkomulag á þingsetningu. „Ýmsir lentu illa í því síðast og hétu því að láta ekki bjóða sér þetta aftur,“ er í Morgunblaðinu haft eftir Ástu Ragnheiði.

Þingsetningarathöfnin hefst í dag með guðsþjónustu kl. 13:30 og verður fjárlagafrumvarpi útbýtt síðla dags. Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram á fimmtudag. Annað kvöld tekur síðan við stefnuræða forsætisráðherra og tilheyrandi umræður. Á sama tíma leggur ríkisstjórnin fram lista yfir stjórnarfrumvörpin.