Nauðasamningar Bakkavarar Group voru samþykktir í mars. Þeir gera ráð fyrir því að félagið þurfi að greiða íslenskum kröfuhöfum sínum 500 milljónir punda, um 90 milljarða íslenskra króna, á næstu fjórum árum.

Samkvæmt þeim munu stofnendur Bakkavarar, bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, eignast 25% í félaginu lok júní 2014 takist þeim að haga rekstri fyrirtækisins með þeim hætti að þeir geti greitt kröfuhöfum sínum að fullu fyrir þann tíma.

Grunnskuldir Bakkavararsamstæðunnar á þessum tíma voru 1.146 milljónir punda, 207,4 milljarðar króna. Bræðurnir samþykktu á móti að láta eftir eignarhluta sinn í Existu, en kröfuhafar félaganna tveggja voru að stærstum hluta þeir sömu.

Þeir höfðu haldið eignarhaldi á Existu með því að ráðast í hlutafjáraukningu í félaginu í desember 2008 þegar þeir greiddu einn milljarð króna fyrir 50 milljarða hluta að nafnvirði. Fyrirtækjaskrá úrskurðaði hlutafjáraukninguna ólögmæta í júní 2009 og málið er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.