Í áramótablaði Viðskiptablaðsins er spjallað við nokkra forystumenn í mismunandi greinum atvinnulífsins þar sem þeir eru spurðir hvernig þeim fannst árið sem er að líða og hvaða væntingar þeir bera til ársins 2015. Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, þótti margt horfa til betri vegar á árinu.

Hvernig var árið 2014 heilt yfir?

Fyrir okkur hjá Sjóvá einkenndist fyrri hluti ársins af skemmtilegri vinnu í tengslum við skráningu félagsins á hlutabréfamarkað. Ég var mjög ánægður með hvernig bæði mitt fólk hjá Sjóvá og okkar ráðgjafar stóðu sig í því verkefni. Ég átti þess kost að hitta stóran og breiðan hóp fjárfesta, kynna fyrir þeim fyrirtækið og heyra þeirra sjónarmið. Rekstur Sjóvár á árinu hefur gengið vel og ánægja bæði starfsfólks og viðskiptavina aukist. Þetta var því gott ár.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?

Mér fannst margt horfa til betri vegar á árinu, þar skiptu kjarasamningar í upphafi ársins töluverðu máli og stöðugleiki í gengis- og verðlagsmálum hefur tryggt mikla aukningu kaupmáttar. Hins vegar er því ekki að leyna að hagvöxtur á árinu hefur verið undir væntingum samkvæmt nýjustu tölum. Ég á von á að það leiðréttist að einhverju leyti þegar árið verður gert upp. Við höfum séð góða aukningu í ferðaþjónustu og verð verið gott á öðrum helstu útflutningsvörum okkar. Þá er ég afar ánægður með að á árinu fengum við hjá Sjóvá jafnlaunavottun enda er mikilvægt að jafnræðis sé gætt í sambærilegum störfum.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?

Ég á von á að næsta ár verði gott og að við getum viðhaldið jöfnum og góðum vexti í hagkerfinu og fjárfesting aukist. Forsenda þess er að vel takist til fyrir báða samningsaðila í kjarasamningum og að viðskiptakjör Íslendinga haldist áfram góð. Árið lítur vel út en staðan er viðkvæm. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn.

Hver eru mikilvægustu verkefni ríkisstjórnarinnar á næsta ári?

Stjórnvöld eiga að skapa forsendur til eflingar atvinnulífinu og bæta þannig lífskjör almennings. Við höfum séð kaupmáttinn aukast, sem er mikilvægt að varðveita. Ná þarf samstöðu um stóru málin og er stöðugleiki á vinnumarkaði og afnám gjaldeyrishafta þar efst á blaði. Það er undir okkur sjálfum komið að ná samstöðu í upphafi nýs árs og nýta þau góðu tækifæri sem til staðar eru.