Útlit er fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði um 2,3%, sem er nokkru minna en spáð var í febrúar. Jafnframt er gert ráð fyrir minni hagvexti á næstu tveimur árum eða rétt undir 3% á ári í stað rúmlega 3%. Bætast þessar verri horfur við að nú er talið að samdráttur síðasta árs hafi verið meiri.

Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans sem komu út í dag. „Það að vöxtur innlendrar eftirspurnar beinist meira að innflutningi en áður var gert ráð fyrir skýrir lakari hagvöxt á þessu ári þrátt fyrir meiri vöxt þjóðarútgjalda og útflutnings. Eins og í fyrri spám Seðlabankans er gert ráð fyrir að innlend eftirspurn verði helsti drifkraftur hagvaxtar á næstu árum en að framlag utanríkisviðskipta verði neikvætt,“ segir í Peningamálum.

Meiri samdráttur

„Útlit er fyrir að samdráttur landsframleiðslu á síðasta ári hafi verið meiri en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í byrjun febrúar eða 3,1% í stað 2,7%. Hann er þó í áætlun Seðlabankans minni en bráðabirgðatölur Hagstofunnar gefa til kynna, en samkvæmt þeim nam samdrátturinn 3,5%.

Áfram er talið að landsframleiðslan hafi byrjað að aukast á ný milli ársfjórðunga um mitt ár í fyrra. Spá Seðlabankans frá því í febrúar gerði ráð fyrir að batinn yrði nokkuð brokkgengur og að tímabundið bakslag yrði í ársfjórðungsvexti landsframleiðslunnar á fyrri hluta þessa árs. Nú virðist hins vegar sem bakslagið hafi verið heldur fyrr á ferðinni og komið á síðasta fjórðungi síðasta árs. Skýrist það að mestu af kröftugri innflutningi en áður var spáð.“