Franska kampavínsfyrirtækið Moet Hennessy hefur sölu á freyðivíni í Kína seinna í þessum mánuði, en sala á freyðivínum hefur þrefaldast í Kína á undanförnum árum. 3,7 milljónir flaskna seldust árið 2009 en í fyrra voru flöskurnar orðnar 13 milljónir talsins.

Vínneysla almennt hefur aukist á sama tíma, en rauðvín er vinsælasta vínið í landinu. Kínverjar eru nú fimmtu stærstu framleiðendur víns í heiminum, sem og fimmtu stærstu neytendurnir.

Stjórnvöld í Kína tóku þá óvenjulegu ákvörðun að leyfa Moet að eiga 100 prósent í víngerðinni, en venjan er að erlend fyrirtæki þurfi að hafa kínverska samstarfsmenn. Stjórnvöld vilja hins vegar auka vöxt í framleiðslu á freyðivínum. Moet hyggst selja 70 þúsund flöskur á þessu ári. Áætlanir gera ráð fyrir framleiðslu á 250 þúsund flöskum á næsta ári.