Vinnuvélaumboðið Vélar & Þjónusta ehf., sem hefur verið í eigu KB banka (nú Kaupþings) síðan haustið 2004 og er nú í eigu ríkisins, munu samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verða sameinað Heklu eða véladeild Heklu um næstu mánaðamót.

Kristbjörn J. Bjarnason, framkvæmdastjóri Véla & Þjónustu, vildi ekki staðfesta þetta beint, en sagði að það geti verið að hagir fyrirtækisins breytist um mánaðamótin. Ekki væri búið að ákveða neitt en málið væri í vinnslu.

“Menn eru að velta því fyrir sér hvernig menn geta haga sér í þeirri stöðu sem uppi er. Við erum að vinna í því eins og aðrir að koma málum þannig fyrir að þetta geti gengið,” sagði Kristbjörn. Hann sagði að málin myndu skýrast í fyrstu viku febrúar.

Samkvæmt heimildum blaðsins er gert ráð fyrir að starfsemi Véla & Þjónustu á Járnhálsi 2 - 4 verði lögð niður um mánaðamótin og flutt til Heklu. Knútur G. Hauksson forstjóri Heklu vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið. Heimildir herma hins vegar að sameining Véla & Þjónustu við Heklu tengist væntanlegri yfirtöku bankans á Heklu.

Kaupþing er viðskiptabanki Heklu og staðfest er að skuldastaða fyrirtækisins hefur versnað mikið vegna gengisfalls krónunnar líkt og flestar annarra fyrirtækja. Þá er sala á nýjum bílum og vinnuvélum nær algerlega frosin og Hekla og önnur bílaumboð sitja uppi með dýra lagera af bílum og tækjum.