Eigendur 96,3% hlutafjár í Össuri hf. nýttu forgangsrétt sinn í útboði til hluthafa sem staðið hefur vikuna 19.-23. september. Samtals óskuðu þeir eftir kaupum fyrir 8,3 milljarða króna, sem er 62% umfram það hlutafé sem í boði var. Félagið selur í útboðinu 63.391.690 nýja hluti á genginu 81 sem eru að andvirði 5.135 milljónir króna. Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka hf. hafði umsjón með útboðinu sem var liður í fjármögnun á kaupum Össurar hf. á bandaríska félaginu Royce Medical Holdings Inc.

Samhliða útboðinu og á sömu kjörum var í dag gengið frá sölu á 3.107.757 nýjum hlutum að andvirði 252 milljóna til þrjátíu og eins stjórnanda hjá Össuri hf.

Hlutafé Össurar hf. eykst um 20,9% við útgáfu þessara nýju hluta.