Viðskiptavinir Íslandsbanka eru ánægðastir samkvæmt niðurstöðu Íslensku ánægjuvogarinnar og fjórða árið í röð er bankinn efstur á bankamarkaði. Stjórnvísi, Samtök iðnaðarins og Zenter standa að mælingunum en viðskiptavinir svara þá spurningum út frá þáttum sem tengjast ánægju þeirra, s.s. ímynd, þjónustugæðum, og áhrif ánægju á tryggð þeirra við fyrirtæki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

„Íslandsbanki hefur framtíðarsýn um að vera #1 í þjónustu og er Íslenska ánægjuvogin mikilvægur mælikvarði á árangur og framgang stefnu bankans. Árangur í Íslensku ánægjuvoginni kemur í kjölfar þess að Íslandsbanki var valinn besti bankinn á Íslandi af bæði Euromoney og The Banker,“ segir í tilkynningunni.

Íslandsbanki hefur lagt áherslu á framsæknar tæknilausnir á borð við Íslandsbanka appið, greiðsluappið Kass, rafrænt greiðslumat, skjáspegilinn og húsnæðislánareiknivélina á vefnum.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir við tilefnið: „„Við erum gríðarlega stolt af því að eiga ánægðustu viðskiptavini banka á Íslandi enda er það okkur mikið kappsmál. Það er er krefjandi en skemmtilegt verkefni að koma til móts við þarfir viðskiptavina með því að veita framúrskarandi þjónustu, hvort sem er með góðri ráðgjöf og þjónustu við viðskiptavini bankans  eða framsæknum tæknilausnum.  Við erum spennt að halda áfram að kynna frekari nýjungar og gera enn betur.“