Skaginn 3X hefur ráðið Viktoríu Alfreðsdóttur í starf svæðissölustjóra fyrir Rússland og Asíu. Viktoría er fædd í Ukraínu en hefur verið búsett á Íslandi um 15 ár. Hún talar því reiprennandi ukraínsku og íslensku ásamt ensku og rússnesku.

Viktoría er menntaður viðskiptafræðingur frá HR og er einnig með mastersgráðu í vörumerkjastjórnun frá Polimoda í Flórens á ítalíu. Ráðning Viktoríu kemur í kjölfar ákvörðunar Skagans 3X að efla sölunet fyrirtækisins í Rússlandi og á Asíumarkaði. Hún mun vinna náið með Pétri Jakob Pétursyni sölustjóra á fyrrnefndum markaðssvæðum.

Ný verksmiðja austast í Rússlandi

Ör vöxtur hefur orðið í sölu fyrirtækisins á undanförnum misserum til þessara svæða. Má þar nefna að Skaginn 3X lauk nýverið bygginu og uppsetningu á uppsjávarverksmiðju í Rússlandi fyrir JSC Gidrostroy á Shikotan sem er ein Kúrileyja austast í Rússlandi.

Fyrirtækið er einnig að vinna að smíði fiskvinnslu fyrir V.I Lenin í Petropavlosk á Kamtchaka, ásamt því að vinna að hönnun, smíði og uppsetningu á fiskvinnslubúnaði í fullkomið vinnsluskip fyrir sama fyrirtæki.

„Viktoría er góð viðbót í söluteymi Skagans 3X. Það er ánægjulegt að fá nýjan starfsmann með ferskar hugmyndir ” segir Pétur Jakob Pétursson.

„Vegna árangursríkra verkefna okkar í Rússlandi hefur eftirspurn eftir vörum og lausnum aukist nokkuð bæði frá rússneska og asíska markaðnum. Staðbundin þekking og tungumálakunnátta Viktoríu sem og sterkur bakgrunnur hennar í markaðsgreiningu mun án efa opna fyrirtækinu margar dyr á þessum mörkuðum. “

Skaginn 3X er framleiðandi hátæknilausna fyrir matvælaiðnaðinn á heimsvísu. Fyrirtækið býður upp á úrval af kæli- og frystilausnum sem og skilvirkum matvinnslukerfum sem eru hönnuð til að hámarka gæði afurða, auka afköst og heildar skilvirkni í rekstri.

Skaginn 3X er með höfuðstöðvar á Íslandi og hefur skrifstofur og samstarfsmenn um allan heim og vinnur náið með viðskiptavinum til að framleiða lausnir með sjálfbærni að leiðarljósi.