Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður, sem hefur mikla reynslu af dómsmálum vegna tryggingamála, segir tryggingafélög neita samningaumleitunum mun oftar en áður. Hann segir stefnu tryggingafélaganna og allt viðmót hafa breyst.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

„Eins og ég skynja þau núna eru þau nánast hrein fjármálafyrirtæki og hafa misst mikið af tengingunni við þann gamla hugsunarhátt að tryggingafélag sé þjónustufyrirtæki sem taki við iðgjöldum og greiði þau aftur út, hugsað fyrir fólk sem tekur sig saman um að vernda hvað annað gegn afleiðingum óvæntra áfalla. Ég finn mun á viðmóti starfsfólksins og þeim fyrirmælum sem það fær frá stjórnendunum,“ segir Vilhjálmur við Morgunblaðið.

Vilhjálmur segir að umferðaróhöpp séu algengt deilumál. Ef skjalagerðin sé óvönduð og fólk lætur ekki skrásetja meiðslin þá geti tryggingafélög túlkað það þannig að ósannað sé að sá sem gerir bótakröfuna hafi orðið fyrir slysi. Fólk sem hefur orðið fyrir heilsubresti sé oft í mjög erfiðri stöðu ef kröfu þess er neitað af hálfu tryggingafélags.