Fyrirtækið Fisherman á Suðureyri vill mæta aukinni eftirspurn ferðamanna með fjölgun hótelherbergja í þorpinu. Forsvarsmaður fyrirtækisins hefur óskað eftir áliti umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar á tillögu um lóðir fyrir átta 45m2 hótelhús og eitt 20m2 geymsluhús við Stefnisgötu á Suðureyri að því er kemur fram á vef Bæjarins besta á Ísafirði.

Í frétt BBkemur fram að hvert hús hefur tvö hótelherbergi og geymsluhúsið er ætlað fyrir starfsfólk sem sinnir ræstingu húsanna. Starfsemin yrði partur af Fisherman Hótel Suðureyri þar sem fyrir er öll almenn hótelþjónusta. Í tillögunni kemur fram að húsin eru hönnuð í sama stíl og önnur eldri hús á svæðinu, með standandi timburklæðningu og bárujárnsþökum. Lóðir húsanna yrðu girtar af með spelagirðingu í gömlum stíl og eitt bílastæði yrði á hverri lóð fyrir hvert herbergi segir í frétt BB.