Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga. Í greinargerð um tillöguna segir að slíkum samningum sé ætlað að tryggja vernd fjárfestinga og stuðla með því að fjárfestingu á milli landa og greiða fyrir alþjóðlegum viðskiptum. Samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga hafi verið að ryðja sér til rúms í samskiptum þjóða.

„Við Íslendingar höfum á hinn bóginn gert mjög fáa slíka samninga. Núverandi aðstæður gera það mjög knýjandi að settur verði mikill kraftur í gerð slíkra samninga. Lærdómurinn sem við getum líka dregið af samskiptum við aðrar þjóðir, jafnvel svokallaðar vinaþjóðir, sýnir okkur að fullt tilefni er til að leggja sérstaka rækt við þessi mál,“ segir í greinargerðinni. Málið hefur verið afgreitt úr utanríkismálanefnd.

Tillagan felur í sér að Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að hefja stefnumótum um gerð samninga við önnur ríki um gagnkvæma vernd fjárfestinga. Stefnt verði að því að fjölga gerð slíkra samninga, til þess að efla traust og skapa hagfelld skilyrði fyrir beina erlenda fjárfestingu hér á landi sem og fjárfestingu íslenskra aðila erlendis. „Gerð slíkra samninga stuðlar jafnframt að aukinni milliríkjaverslun og veitir fjárfestum aukna vernd. Sérstaklega verði að því stefnt að gera samninga af þessu tagi við þau ríki þar sem Íslendingar hafa mestu viðskiptahagsmunina.“

Um 2.500 samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga hafa verið gerðir í heiminum. Samningarnir eru tvíhliða og fela í sér að ríki sem eiga í hlut leitast við að skapa hagstæðar aðstæður fyrir fjárfestingar af hálfu fjárfesta annars ríkis á landsvæði hins.

Bretar hafa gert flesta slíka samninga og eru um 100 í gildi í dag. Ísland hefur gert samtals ellefu samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga.