Móðir ungs karlmanns sem glímt hefur við veikindi vill að innheimtudeild Landspítalans spari kostnað vegna prentunar og póstburðargjalda með því að hætta að senda út greiðsluseðla á pappír. Sonur hennar, sem er 34 ára gamall, hefur undanfarin ár þurft að sækja þjónustu á Landspítala-háskólasjúkrahúsi í hverri viku og greitt fyrir þá þjónustu það sem honum ber.

Í bréfi sem móðirin sendi Landspítalanum segir hún að honum hafi borist greiðsluseðlar frá LSH síðastliðið ár, útgefnir af Íslandsbanka, vegna viðtala og skoðana hjá lyflækni og vegna óm- og dopplerskoðana á hjarta. Hver seðill sé upp á 1.200-3.500 krónur. Þessar kröfur hafa allar komið inn í heimabanka mannsins og samviskusamlega verið greiddar þar.

Hinn 3. október síðastliðinn barst manninum bréf frá innheimtudeild LSH um ógreidd rannsóknargjöld að upphæð 31.170 krónur. Um var að ræða reikninga fyrir 59 komur á LSH á tímabilinu 24. júlí 2012 til 5. ágúst 2013, hver að upphæð á bilinu 300-700 króna. Engin af þessum 59 kröfum birtist í heimabanka mannsins og hafði þess vegna farist fyrir að greiða þær.

Í bréfi til Landspítalans spyr móðir mannsins hvort innheimtudeild LSH gæti ekki sett ALLA greiðsluseðla beint inn í heimabanka viðkomandi sjúklings, sleppt því að senda greiðsluseðla á pappír og  sparað um leið kostnað vegna prentunar og póstburðargjalda, sérstaklega þegar verið sé að innheimta fjárhæðir sem duga ekki fyrir prent- og póstkostnaði.

Þá segir móðirin að það mætti líka spara með því að setja greiðsluseðla, sem gefnir eru út sama dag, í sama umslag en ekki einn seðil í hvert umslag (24. júlí 2012 voru t.d. gefnar út 11 kröfur á manninn, 11 seðlar prentaðir og sendir heim í 11 umslögum). Skynsamlegast væri að sameina þessar lágu kröfur gagnvart sjúklingum sem mæta jafn oft og umræddur maður gerir og rukka fyrir nokkrar komur saman og spara kostnað vegna krafna. Af umræðu undanfarið mætti ætla að LSH gæti nýtt það fé í annað.