Vinnslustöðin hf. hagnaðist um 7,2 milljónir evra eftir skatta á síðasta ári, en fjárhæðin jafngildir um 1.140 milljónum króna. Eyjafréttir greina frá þessu.

Hagnaðurinn dregst saman á milli ára, en á árinu 2013 nam hann 11,5 milljónum evra. Aðalfundur Vinnslustöðvarinnar fór fram í Vestmannaeyjum í gær, og hafa Eyjafréttir eftir Guðmundi Erni Gunnarssyni stjórnarformanni að í ljósi loðnubrests á síðasta ári sé afkoman vel viðunandi.

Þá mun Vinnslustöðin greiða 519 milljónir króna í veiðigjöld til ríkisins á yfirstandandi fiskveiðiári og áætlar að greiða 865 milljónir króna vegna næsta fiskveiðiárs.

Samþykkt var á aðalfundinum að greiða hluthöfum, sem eru 247 talsins, samtals 8 milljónir evra í arð, en fjárhæðin jafngildir tæplega 1.200 milljónum króna.