Greiðslukortafyrirtækið Visa hyggur á skráningu á hlutabréfamarkað, en mikill þrýstingur hefur verið á um það frá yfirvöldum að undanförnu. Visa mun aðgreina starfsemi fyrirtækisins í Evrópu frá öðrum rekstri fyrirtækisins, segir í frétt Financial Times.

Fyrir sex mánuðum var samkeppnisaðili Visa, MasterCard skráð á hlutabréfamarkað, en það var gert til að koma í veg fyrir að aðildarbankar fyrirtækisins yrðu lögsóttir. Í maí var gengi bréfa MasterCard í 39 Bandaríkjadölum á hlut, en er nú í kring um 70 Bandaríkjadali, sem þýðir að andvirði fyrirtækisins er um 650 milljarðar króna. Talið er að Visa muni skrá fyrirtækið í Kauphöllina í New York og telja greiningaraðilar að andvirði fyrirtækisins sé talsvert meira en 685 milljarðar króna.

Visa og MasterCard hafa sætt auknum rannsóknum og athugasemdum frá yfirvöldum og smásölum og er talið að þau leggi of há gjöld á notendur. Í júní hafði Visa meðhöndlað greiðslur að andvirði 295 billjónir á ársgrundvelli og er því ljóst að fyrirtækið hefur mikla þýðingu í alþjóðaefnahagsumhverfinu.

Starfsemi Visa í Evrópu verður í eigu aðildarbanka fyrirtækisins og verður rekið sem leyfishafi hlutafélagsins Visa. Forstjórar Visa segja að þessi leið hafi verið valin til að koma til móts við kröfur framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins sem hefur þrýst á að komið verði á sameiginlegu greiðslusvæði innan Evrópusambandsins fyrir árið 2008.

Peter Hawkins, framkvæmdarstjóri Visa International, segir að aðgerðirnar séu fyrirtækinu til bóta, þar sem það fái aðgengi að utanaðkomandi fjármagni til að auka vöxt fyrirtækisins á nýjum markaðssvæðum. Talið er að Visa Europe og aðildarbankar þess muni hagnast gríðarlega við flot fyrirtækisins, en talið er að það muni verða eftir 12 til 18 mánuði.