Robert Wade, prófessor við London School of Economics, hefur svarað gagnrýni Friðriks Más Baldurssonar og Richard Portes á grein hans um íslenska hagkerfið sem birtist í Financial Times 2.júlí síðastliðinn.

Wade bendir á úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, en umsögn sjóðsins segir hann mun nær sinni greiningu á íslenska hagkerfinu en þeirri „draumkenndu sýn" sem prófessorarnir tveir hafi á því. Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dvaldi hér á landi 27.júní til 4.júlí síðastliðinn.

Í úttekt sendinefndarinnar kemur meðal annars fram að efnahagslegt ójafnvægi sé fyrir hendi í íslenskum þjóðarbúskap, og að efnahagsreikningar fyrirtækja í einkageiranum hafið bólgnað út á síðustu árum með hjálp erlendrar fjármögnunar, sem sé nú af skornum skammti.

Svar prófessorsins er í styttri kantinum, og megininntak þess er samantekt tilvitnana í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Wade vakti talsverða athygli hérlendis eftir skrif sín í byrjun mánaðarins um íslenskra hagkerfið. Mesta athygli vakti þó spádómur hans um framvindu á hinu pólitíska sviði, en Wade leiddi líkur að því að Samfylkingin myndi brátt slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og knýja fram kosningar.