Umræðan um einkavæðinguna hér á landi hefur tekið á sig skrítna mynd undanfarna áratugi. Hún hvílir á þætti nokkurra áhrifamanna í stjórnmálum og efnahagsmálum sem áttu hafa hrint henni í framkvæmd fullir af innblæstri af verkum Margaret Thatcher og Ronalds Reagan

Þessari söguskýringu fylgir oft klifun á hugtökum á borð við „nýfrjálshyggju“. Út frá fræðunum er nýfrjálshyggja (e. neoliberlism) notuð yfir áherslu stefnusmiða seint á áttunda áratug síðustu aldar um að leiðin úr efnahagsvanda vestrænna ríkja væri að afnema miðstýringu verðlags, liðka fyrir virkni fjármagnsmarkaða með vaxtafrelsi, afnema hindranir í alþjóðaviðskiptum og hverfa frá ríkisrekstri á samkeppnismörkuðum.

Andstæðingar einkaframtaksins hér á landi ræða sjaldnast hvað hugtakið felur raunverulega í sér. Enda snýst umræðan oftar en ekki um að slá pólitískar keilur þar sem andstæðingnum í leiknum er lýst sem kaldrifjuðum eiginhagsmunasegg sem lifir fyrir það að koma verðmætum úr eigu ríkisins í hendur gróðapunga. Umræðu í þessum anda óx fiskur um hrygg eftir fjármálakreppuna 2008 og síðan þá hefur eiginlega öllum hugmyndum um að draga ríkið úr samkeppnisrekstri verið mætt með frösum um að „nýfrjálshyggjan hafi valdið hruninu“ og fólk spurt hvort það hafi nokkuð „gleymt að hér varð hrun!“

Þetta er ekki gæfuleg umræða og ekki til þess fallin að gera nokkurt gagn. Staðreynd málsins er að hin svokallaða nýfrjálshyggja var ekki stefnutæki sem var falið sérstaklega í hendur Thatcher og Reagans á níunda áratugnum og hópur manna tók upp hér á landi. Réttara er að tala um ákveðna hugmyndafræði, sem byggir auðvitað á eldri hugmyndum og sækir meðal annars innblástur til austurrísku hagfræðinganna, sem tók að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum á áttunda áratugnum

Leið út úr efnahagslegum ógöngum

Líta má á þetta sem ákveðið viðbragð við þeim efnahagslegu ógöngum sem hagkerfi beggja vegna Atlantsála höfðu lent í eftir að Bretton Woodskerfið liðaðist í sundur og áhrifa olíukreppu þess ágæta áratugar fór að gæta um heim allan. Það að gengi Bandaríkjadals tók að fljóta í stað þess að hvíla ígildi gullfótar gegnum BW-kerfið leysti úr læðingi þann verðbólguþrýsting sem byggst hafði upp á sjöunda áratugnum og olíukreppurnar gerðu illt verra. Efnahagur Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu einkenndist af stöðnun og verðbólgu á þessum tíma.

Á sama tíma stóðu stjórnmálamenn frammi fyrir hagkerfum sem einkenndust af miklum ríkisafskiptum og miklu regluverki sem hamlaði bæði samkeppni og frjálsri verðmyndun. Þetta síðarnefnda átti ekki síður við bandaríska hagkerfið en það evrópska. Gagnvart þessum efnahagslegu vandamálum fór skilningur á að frjálsræði í viðskiptum og minni ríkisumsvif gætu verið lykillinn að lausninni.

Í þessu samhengi er ágætt að rifja upp orð Atla Harðarsonar um nýfrjálshyggjuna. Í tímaritinu Þjóðmálum sem kom út haustið 2010 skrifaði hann ritdóm um bókina Eilífðarvélin – uppgjör við nýfrjálshyggjuna sem Kolbeinn Stefánsson ritstýrði. Þar segir Atli að þó svo að nýfrjálshyggjunni hafi verið lýst sem ríkjandi hugmyndafræði þá séu engir stjórnmálaflokkar eða fjöldahreyfingar sem kenna sig við hana:

„Sé hún einhverskonar fjöldahreyfing er hún mjög óvenjuleg að því leyti að það kannast varla nokkur maður við að tilheyra henni. Þeir sem kalla sjálfa sig frjálshyggjumenn eru fremur fámennur hópur og ég held að þeir telji sig almennt ekki aðhyllast neina nýfrjálshyggju heldur bara gamaldags frjálshyggju.“

Réttu verkfærin

Í þessu ljósi er réttast að líta á þessa svokölluðu nýfrjálshyggju sem ákveðna verkfæratösku sem tekin var upp þegar viðgerðir á efnahagskerfum Vesturlanda hófust seint á áttunda áratugnum. Í sjálfu sér er ekki hægt að sjá neitt nýtt við þessa verkfæratösku: Hugmyndir um að minni ríkisumsvif örvi efnahagslífið með því að auka fjárfestingu einkageirans og um að frjálsræði markaða skili flestum efnahagslegan ávinning voru rótgrónar.

Þessum ráðum var byrjað að beita víðar en í Bretlandi í valdatíð Thatcher og af mun fleiri stjórnmálamönnum en stundum má ráða af umræðunni. Jimmy Carter tók til að mynda mörg og mikilvæg skref í átt að afregluvæðingu í valdatíð sinni. Flugmarkaðurinn vestanhafs var bundinn í klafa verðlagshafta en Carter ruddi brautina fyrir frelsi í þeim efnum og það sama má segja um fjarskiptageirann.

Gamall sósíalisti bætir sitt ráð

Einkavæðing ríkisfyrirtækja átti sér ekki eingöngu stað í Bretlandi heldur á meginlandi Evrópu á NÝFRJÁLSHYGGJAN Hann þjóðnýtti fyrirtæki í fjármálageiranum og iðnframleiðslu, stytti vinnuvikuna, hækkaði bætur og jók ríkisútgjöld. níunda áratugnum. Mikilvægt er að hafa í huga að  François Mitterrand hrinti í framkvæmd meiriháttar efnahagsbreytingum í upphafi valdatíðar sinnar sem líkja má við fullkominni andstæðu við hugmyndir sem efnahagslegt frjálsræði sem höfðu verið að ryðja sér til rúms eins og lýst er fyrir ofan.

Mitterand Frakklandsforseti hlustar á Sykurmolana að taka einn laufléttan slagara.
Mitterand Frakklandsforseti hlustar á Sykurmolana að taka einn laufléttan slagara.

Hann þjóðnýtti fyrirtæki í fjármálageiranum og iðnframleiðslu, stytti vinnuvikuna, hækkaði bætur og jók ríkisútgjöld. Þetta hafði skelfilegar afleiðingar. Það segir kannski meira en mörg orð um hversu sjálfgefið það var orðið að frjálsræði væri lykillinn að lausn efnahagsvandans sem steðjaði að Vesturlöndum að gamli sósíalistinn Mitterrand játaði sig fljótt sigraðan og sneri við blaðinu í efnahagsmálum.

Í átt að hinum sameiginlega markaði

Segja má að viðsnúningur Mitterrands hafi verið mikilvægur þáttur þess að helstu ríki Evrópu komu sér saman um að leiðin áfram fælist í auknu frjálsræði og vegferðin í átt að hinum sameiginlega markaði hófst og fjórfrelsinu. Þótt ekki sé því saman að líkja má samt sem áður segja að sambærileg vegferð hófst hér á landi þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ákvað að taka veigamikil skref í átt að vaxtafrelsi þegar bankar fengu heimild til þess að ákvarða inn- og útlánsvexti í flestum tilfellum. Sagan segir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi notað tækifærið til þess að koma þessu gegnum þingið meðan forsætisráðherra fylgdist með Ólympíuleikunum sem fóru fram í Los Angeles 1984.

Með vaxtafrelsinu lá fyrir að frjálsræðið myndi aukast þó svo að leiðin væri ekki skýr á þeim tíma. Á sama tíma og þetta allt gerðist hófust svo á alþjóðavettvangi tilraunir til þess að auka frjálsræði í alþjóðaviðskiptum. Þær tilraunir héldust í hendur við þá þróun sem átti sér stað í Bandaríkjunum og Evrópu. Ein sú merkasta í þessum efnum er vafalaust stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem tók við af GATT-samningunum og auk þess verður að minnast staðbundinna milliríkjasamninga í Suður-Ameríku, Norður-Ameríku og Asíu. Þetta greiddi leiðina fyrir fjölda landa inn í alþjóðaviðskiptakerfið og hefur leitt til lífskjarabyltingar víðsvegar um heim.

Það er fullt tilefni til að rifja þessa sögu upp. Ekki síst á tímum sem einkennast af linnulausri aukningu ríkisútgjalda og fjölgun ríkisstofnana. Þegar horft er til umræðunnar hér á landi virðast svörin við flestum vandamálum felast í aukningu ríkisútgjalda og fjölgun ríkisútgjalda.

Þessi grein birtist í síðasta tölublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í mars 2024.