Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrir skömmu hefur Blaðamannafélag Íslands sett á fót sjálfseignarstofnunina Glætuna. Um er að ræða sjóð sem styrkir „fréttaflutning og miðlun upplýsinga, skoðana og hugmynda í gegnum fjölmiðla. Áherslur stofnunarinnar eru að styðja við samfélagslega mikilvæga blaðamennsku, sem hefur að markmiði að upplýsa, veita aðhald og setja í samhengi mál sem varða almenning eða samfélagið í heild,“ eins og segir í skipulagsskrá fyrir Glætuna sem birtist í Stjórnartíðindum.

Jafnframt kemur fram í skipulagsskránni að stofnunin muni einungis ráðstafa fjármunum sínum „með styrkjum til einstakra verkefna; rannsókna, útgáfu og framleiðslu frétta í rúmum skilningi. Þess skal gætt að þau verkefni sem stofnunin styrkir séu unnin í samræmi við góða blaðamennskuhætti og siðareglur Blaðamannafélags Íslands.“

Í stuttu máli hefur stjórn félagsins, sem er að mestu samsett af blaðamönnum sem starfa hjá Heimildinni eða RÚV, ákveðið að stofna sjóð sem ekkert sérstakt ákall var eftir. Að auki ríkir óvissa um hverjir eigi rétt á styrkjum úr sjóðnum. Eru það einungis einyrkjar eða er sjóðurinn að fara niðurgreiða laun blaðamanna fyrir atvinnurekendur?

Stjórn styrktarstofnunarinnar, sem skipuð verður fimm aðilum, tekur svo ákvörðun um hvaða umfjöllunarefni þeim þyki þóknanlegt að niðurgreiða og hvaða umfjallanir eru ekki nógu merkilegar til að hljóta niðurgreiðslu.

Verðlaunablaðamenn.
© Facebook (Facebook.com)

Hver borgar brúsann?

Umrædd styrktarstofnun er hluti af nýjum áherslum stjórnar Blaðamannafélagsins. Týr hafði vonast til að þessi afleita hugmynd, sem virðist einmitt byggja á Kjarnasjóðnum fræga, yrði aldrei að veruleika en varð því miður ekki af ósk sinni.

Ýmsar áleitnar spurningar vakna í tengslum við stofnun styrktarsjóðsins. Fram kemur í pistli Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns Blaðamannafélagsins, í nýjast tölublaði málgagns félagsins að sjóðurinn verði rekinn fyrir styrktarfé. Þá segir jafnframt í skipulagsskránni að stofnuninni sé heimilt að taka við framlögum sem henni berast.

En hvaðan mun þetta styrktarfé koma? Í einni af fundargerðum stjórnar félagsins kemur reyndar fram að leitað verði á náðir ríkisins. Öðruvísi Tý áður brá.

Að öðru leyti ríkir fullkomin óvissa um hvaðan fjármunirnir muni koma. Mun Blaðamannafélagið sjálft dæla inn hluta af fjármagni sínu, sem sagt fjármagni félagsmanna, inn í sjóðinn eða mun fjármagnið koma frá styrktaraðilum, þá fyrirtækjum og einstaklingum?

Mjög mikilvægt er fyrir félagsmenn að fá svar við þessu, enda efast Týr um að félagsmenn kæri sig um að hluti mánaðarlegrar greiðslu sinna til félagsins renni í óskilgreindan sjóð sem ekki nokkur maður, fyrir utan stjórn Blaðamannafélagsins og forsvarsmenn Kjarnasjóðsins sáluga, hefur kallað eftir.

Ef hið síðarnefnda er raunin, að fyrirtæki og einstaklingar eigi að koma með fjármagn að borðinu, blasir við hve óheppilegt slíkt fyrirkomulag er. Þannig gætu styrkgjafar sett pressu á stjórn sjóðsins til að velja eða hafna verkefnum eftir eigin hentugsemi, eða stjórnin a.m.k. verið með það á bakvið eyrað að styggja ekki mikilvæga styrktaraðila.

Það að stjórn Blaðamannafélagsins hafi ekki áttað sig á þessu er rannsóknarefni út af fyrir sig.

Til að toppa vitleysuna kemur svo fram í skipulagsskránni að Glætu sé heimilt að ráða framkvæmdastjóra yfir sjóðinn, auk þess að vera heimilt að skipa sérstaka úthlutunarnefnd sem verður til ráðgjafar um úthlutun styrkja.

Fjöldaflótti yfirvofandi?

Týr efast mjög um að hinn almenni félagsmaður Blaðamannafélagsins sé ánægður með gang mála innan raða félagsins. Af stefnu og aðgerðum stjórnar félagsins að dæma virðist starfsemi félagsins fyrst og fremst snúast um að laga félagið að pólitískum skoðunum formannsins.

Stjórn Blaðamannafélagsins hefur lýst því yfir að stjórnarkjör fari fram í byrjun mars. Mikilvægt er að núverandi formaður fái öflugt mótframboð svo félagsmenn gefist kostur á að gera upp við sig hvort það vilji að félagið haldi áfram á sömu braut eða að horfið verði frá þessari vitleysu. Því ef haldið verður áfram á sömu braut er erfitt að sjá annað í kortunum en fjöldi félagsmanna muni sjá sæng sína upp reidda og segja sig úr félaginu.