Fyrir einhverjum mánuðum síðan ritaði Týr eftirfarandi um Vilhjálm Birgisson, formann Starfsgreinasambandsins og Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR: „Þessir menn, sem maður taldi áður hafa prinsipp og vera heilir í sinni baráttu, hafa verið svipubarnir til hlýðni undir Sólveigu Önnu.“

Tilefni ummælanna var ærandi þögn þeirra félaga þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði upp öllu starfsfólki Eflingar, sem sum hver voru félagar í VR. Þótt Týr hefði viljað sjá prinsipplínuna dregna við slíkar hreinsunaraðgerðir, þá er ánægjulegt að sjá að Vilhjálmur er þó enn með einhver prinsipp. Hann vék sér blessunarlega undan svipu Sólveigar Önnu, sýndi ábyrgð og náði góðum kjarasamningi - félagsmönnum sínum og samfélaginu öllu til heilla.

***

Brestir virðast einnig vera í bandalagi Ragnars Þórs og Sólveigar Önnu, að minnsta kosti yfirborðssprungur, þar sem þau ganga ekki sameinuð til samninga. Ekki er útilokað að um taktísk ráð sé að ræða að koma ekki fram sem bandalag opinberlega, þar sem félagsmannahópur VR er allt annars eðlis en Eflingar og hagsmunir þeirra um margt ólíkir. Það gæti þó vel verið að þau leggi á ráðin saman bakvið tjöldin.

Bæði hafa þau verið nógu lengi í verkalýðshreyfingunni til að ætla mætti að þau átti sig á því að umsamin krónutöluhækkun í kjarasamningum er ekki jafngildi kaupmáttaraukningar. Ef fyrirtækin í landinu ráða ekki við umsamdar launahækkanir þá munu þessar hækkanir skila sér beint út í verðlagið og éta upp kaupmáttinn, auk þess sem störfum mun fækka. Launþegar geta þannig setið eftir með sárt ennið ef of langt er seilst.

***

Það sem á eftir að koma í ljós er hvort Ragnar Þór hafi hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi eða sé ofurseldur byltingardraumórum Sólveigar Önnu. Henni er nefnilega alveg sama um launþegana sem hún starfar fyrir. Hún vill byltingu og veit vel að hún sprettur ekki upp úr glaðbeittum hópi verkalýðs. Kröfur sem fara langt fram úr kjarasamningi SGS munu ekki njóta trúverðugleika og því er ljóst að byltingaráform Sólveigar Önnu, og eftir atvikum Ragnars Þórs, eru í nokkru uppnámi. Ofsafengin viðbrögð Sólveigar Önnu við samningi SGS, sem hefði frekar verið tilefni til hamingjuóska, tala sínu máli.

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 7. desember 2022.