Týr fagnar því að atvinnulífið muni eiga nokkra frambjóðendur í komandi forsetakosningum.

Nú þegar hefur Sigríður Hrund Pétursdóttir, fyrrum formaður Félags kvenna í atvinnurekstri og fjárfestir, kynnt um framboð sitt. Fréttir herma einnig að Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team í New York, íhugi framboð.

Teymið sem Halla leiðir vinnur að umbreytingu á viðskiptum og stjórnarháttum og má alls ekki rugla saman við A-liðið svokallaða sem Herra T. leiddi svo eftirminnilega á
níunda áratug síðustu aldar.

***

Halla hlaut glæsilega kosningu í síðustu forsetakosningum og bjóði hún sig fram að nýju má segja að kjósendur geti valið um tvær glæsilegar konur sem hafa reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu.

Týr greinir ákveðinn og sterkan samhljóm þegar kemur að erindi þeirra Sigríðar og Höllu í forsetaframboð. Þannig vísaði Sigríður þegar hún tilkynnti um framboð sitt á dögunum til fjölskyldunnar og þrá manna eftir friði. Hún sagði: „Friður í hjörtum þýðir friður í heimi. Friður í fjölbreytni samfélags kallar á þolinmæði, þolgæði, þrautseigju og umburðarlyndi.“

Í viðtali við Kjarnann fyrir síðustu forsetakosningar var Höllu tíðrætt um móðurhlutverkið: „Ég hef stundum sagt að það þurfi móður og fyrirliða á Bessastaði, frekar en hetju eða einhvern sem telur sig stærri eða betri en aðra. Ég sé fyrir mér mýkri meðferð á valdi heldur en við höfum séð undanfarið. Auðmýkt er hornsteinn þess að ná að virkja fólk með sér.“

Einnig eru þær sammála um heppilegast sé að sem flestir bjóði sig fram til forseta. Sigríður segir: „Hér mun mæta landslið frambjóðenda sem við fögnum, hvetjum og gefum rými til að vera og tjá sig, því þannig fáum við liðsheild og það besta út úr hverjum og einum liðsaðila.“

Halla sagði 2016: „Allir hafa burði og getu til þess að taka á sig ábyrgð. Ég ber virðingu fyrir því að fólk bjóði sig fram og ég held að það sé betra að margir bjóði sig fram heldur en að þeir séu of fáir og fólk haldi að bara einhver einn eða tveir geti valdið þessu embætti.“

***

Næstu forsetakosningar verða mikil lýðræðishátíð og Týr fagnar því að atvinnulífið liggi ekki á sínu þegar kemur að því að vera jarðvegur fólks sem á svo sannarlega erindi á Bessastaði.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom út miðvikudaginn 6. mars 2024.