*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Sigurður I. Friðleifsson
16. maí 2021 13:22

Hvar eru nýorkusendibílarnir?

Fyrirtæki sem stunda vöruflutninga með minni bílum verða að endurskoða afstöðu sína í endurnýjun flotans með tilliti til hreinnar orku.

epa

Allir sem leyfa sér að taka hausinn upp úr sandinum átta sig á að olía er á útleið í samgöngum með tilheyrandi ávinningi fyrir alla. Orkuskiptin munu taka tíma þar sem líftími bifreiða er 10 til 20 ár. Markaðshlutdeild nýskráðra fólksbifreiða, sem hægt er að stinga í samband, er nú þegar komið yfir 50% á þessu ári. Allt bendir til þess að að yfirgnæfandi hluti nýskráninga í fólksbifreiðaflokki verði með innstungu á næstu árum enda hrúgast inn nýjar tegundir rafbíla í öllum flokkum. En á meðan meirihluti nýskráninga hjá fólksbílum teljst til nýorkubíla þá er nýskráningarhlutfall sendibíla sem ganga á rafmagni á þessu ári aðeins 2%. Það er vel skiljanlegt að rafsendibílar henti ekki fullkomlega í alla starfsemi en að 98% þurfi að vera á dísil er algerlega óásættanlegt. Við þurfum miklu fleiri nýskráningar á nýorkusendibílum til að standast skuldbindingar okkar í loftslagsmálum og þetta lága hlutfall er rennblaut tuska í stefnu stjórnvalda um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst þjóða.

Hvað er hann lengi að borga sig upp?

Þessi spurning kemur alltaf upp þegar talað er um orkuskipti bíla. Stutta svarið er auðvitað að bíllinn mun á endanum borga sig vegna lægri eldsneytiskostnaðar og lægri viðhaldskostnaðar. Einnig eru í boði ívilnanir frá stjórnvöldum, t.d. var nýlega samþykkt sérstök  ívilnun til að styðja við umhverfisvænar fjárfestingar og græna umbreytingu hjá fyrirtækjum, þar sem heimilað er að reikna sérstakt 15%  fyrnanlegt  álag á kaupverð grænna eigna. En erum við virkilega ekki komin lengra? Er ekki hægt að borga fyrir þau almennu verðmæti að orkuskipti skila fjölbreyttum ávinningi fyrir þjóðarbúið sem fyrirtæki eru jú hluti af. Minni heilsuspillandi mengun, minna gjaldeyrisútflæði, minni hávaði, meira orkuöryggi, hagkvæmara raforkukerfi o.s.frv. er samfélagsávinningur og fyrirtæki eru hluti af samfélaginu. Þegar fyrirtæki fjárfesta í öðrum hlutum er ekki alltaf valinn ódýrasti búnaðurinn, heldur er einnig litið til annarra þátta. Þeir stjórnendur sem lesa þennan pistil sitja varla á ódýrasta klappstól sem hægt var að finna í Góða hirðinum, nei líklega eru þið í tiltölulega þægilegum skrifstofustól þar sem litið var til gæða og þæginda en ekki bara innkaupaverðs. Hvað er sá stóll lengi að borga sig upp?

Rífið ykkur í gang

Ef við tökum út fyrir sviga þá sendibíla sem þurfa að lágmarki 500 km drægni á dag þá er örugglega talsverður hluti sendibíla sem hægt er að keyra á rafmagni, alla vega meira en 2%. Nú þegar eru mörg fyrirtæki sem eru á fullu í þessari vegferð eins og t.d. AHA sem fer allar sínar sendiferðir á rafmagni og hefur gert lengi. Eru viðskiptavinir að heimta að vörur séu fluttar með dísilolíu? Það verður að teljast ólíklegt þar sem langflestir eru orðnir mjög meðvitaðir um umhverfismál. Þetta er einfaldlega spurning um nútímavæðingu og aðlögun að breyttum markaði. Eins og áður segir er ekki hægt að rafvæða alla sendiþjónustu ennþá en er í alvörunni bara hægt að mæta 2% af þessari starfsemi með nútímatækni?

Það sem þarf að gerast

Fyrirtæki sem stunda vöruflutninga með minni bílum verða hreinlega að endurskoða afstöðu sína í endurnýjun flotans og fyrirtæki sem kaupa þjónustu af minni sendibílum verða að stíga upp og gera sterkari kröfu um að vörur til þeirra séu í meira mæli fluttar með innlendri og hreinni orku. Þessir 500 glænýju dísil sendibílar sem hafa verið nýskráðir það sem af er að árinu 2021 verða líklega flestir enn á götunni 2030. Við þurfum um 10 þúsund nýja raf- eða metan sendibíla inn í kerfið okkar fyrir 2030 til að standast skuldbindingar okkar í loftslagsmálum. Nýskráningartölur fyrstu mánaða þessa árs eru vonbrigði og benda ekki til að þetta markmið náist.

Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.