Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, benti á dögunum á þau augljósu sannindi að útilokað er að halda úti velferðarkerfi án þess að reglur gildi um landamæravörslu og útlendingamál.

Kristún sagði enn fremur að til þess að standa vörð um sjálfbærni velferðarkerfisins þyrftu að gilda reglur um útlendingamál sem leiddu ekki til stjórnlausrar útgjaldaaukningar til málaflokksins. Í stuttu máli er þetta það sama og sumir sjálfstæðismenn hafa bent á á þingi og uppskorið ásakanir um fasisma og kynþáttahatur.

Bein útgjöld vegna þessa málaflokks verða á þriðja tug milljarða í ár og heildarkostnaðurinn mun meiri þegar allt er tekið til. Áhyggjur af stjórnlausum útgjöldum hafa hvorki með fasisma né kynþáttahatur að gera.

Týr sá að Ríkisútvarpið leitaði í smiðju Eiríks Bergmanns stjórnmálafræðings til rýna í ofangreind orð. Stjórnmálafræðingurinn stakk puttanum upp í loft og kvað svo upp úrskurð sinn: Kristrún er að færa flokkinn til hægri.

Er það svo? Gæti kannski staðreynd málsins verið að stjórnmálamenn á vinstrivængnum hafi til þessa verið að elta háværan minnihlutahóp sem kennir sig við landamæraleysi?

No borders-hreyfingin hér á landi hefur hertekið umræðuna um innflytjendamál. Fyrir utan íslenska vinstriflokka hefur enginn stjórnmálaflokkur sem nær nokkru máli tekið undir þann málflutning á Vesturlöndum og það er hvergi á dagskrá.

Öðru nær, því fram hafa komið efasemdir um Schengen, og þess má minnast frá dögum Covid að ýmis lönd Evrópusambandsins upphófu jafnvel frjálsa för milli landanna. Undanfarin ár hefur tilhneigingin verið eindregin í hina áttina, að efla landamæragæslu. Það á ekki aðeins við í Evrópu, það er eitt heitasta kosningamálið í Bandaríkjunum og hið sama á við í fjölmörgum ríkjum Asíu.

Týr getur ekki með neinu móti séð að Kristrún sé að færa flokk sinn eitt né neitt. Hún talar fyrir stefnu sem tekur mið af efnahagslegum raunveruleika og hversu mörgum flóttamönnum hægt er að taka á móti svo að vel sé.

Hætt er við því að menn átti sig á því að um þetta ríkir breið pólitísk samstaða meðal almennings ef hávaðinn frá No borders-hreyfingunni minnkar einhvern tíma.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.