Týr hefur í gegnum tíðina verið óhræddur við að gagnrýna hve reglulega Ríkisútvarpið sér sig knúið til að hefja samkeppni við einkarekin félög á fjölmiðlamarkaði. Nýjasta útspil Stefáns Eiríkssonar, útvarpsstjóra, og Rúnars Freys Gíslasonar, framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar, að hefja beina samkeppni við Idolið sem nú er í fullum gangi á Stöð 2 var þó eitthvað sem Týr hafði ekki séð í kortunum.

Eins og sagt var frá í kvöldfréttum ríkismiðilsins og víðar hefur verið ákveðið að „rjúfa tengsl á milli Söngvakeppninnar og þátttöku Íslands í Eurovision“. Ríkisútvarpið hyggst sem sagt halda söngvakeppni – sem hefur haft þann eina tilgang í gegnum tíðina að velja framlag Íslands í Eurovision – sem fyrr en ekki verður tekin ákvörðun með þátttöku Íslands í Eurovision fyrr en að Söngvakeppninni lokinni. Haft verður samráð við sigurvegara um hvort haldið verði út til Svíþjóðar til að taka þátt í Eurovision.

Samkvæmt orðræðuhefð sem skapast hefur á netmiðlum og er hampað í fréttaflutningi ríkismiðilsins stendur sigurvegaranum þar af leiðandi til boða að verða úthrópaður sem stuðningsmaður barnamorða eða þá gyðingahatari.

Með þessu telur Ríkisútvarpið sig vera að koma til móts við þá sem eru ósáttir við að Ísrael sé ekki meinuð þátttaka í Eurovision vegna stríðsátakanna á Gaza. Rétt er að rifja upp þá staðreynd fyrir tónlistarmönnum sem skortir siðferðilegt þrek til þess að taka eigin ákvarðanir um hvort þeir taki þátt í keppninni og kröfðust að Ríkisútvarpið gerði það fyrir þá, að átökin á Gaza eru ekki ný af nálinni.

Týr klórar sér í kollinum yfir þessari ákvörðun útvarpsstjóra og framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar og vekur hún fjölda spurninga. Til hvers á að halda Söngvakeppnina ef yfirlýstur tilgangur keppninnar, það að þjóðin fái að velja framlag Íslands í Eurovision, er í lausu lofti? Ætla má að svarið sé peningar, því eins og vitað er er söngvakeppnin ein helsta tekjulind ríkismiðilsins í formi seldra auglýsinga, miðasölu á keppnina o.s.frv.

Af hverju ætti almenningur að eyða peningum sínum í að kjósa sitt uppáhalds atriði þegar óvíst er að það muni skila því undir ljósin á hinum glæsilega Malmö Arena? Í raun og veru verður söngvakeppni RÚV á þessum forsendum einungis keppni sem hefur þann eina tilgang að keppa við Idolið og Skrekk.

Þá kann þetta að leiða til þess að keppendur geti fyrirfram upplýst um hvort þeir hyggist taka þátt í Eurovision eður ei. Því gæti komið upp sú staða að afstaða keppenda hafi mest að segja um fjölda atkvæða sem fellur til þeirra. Þannig snerist Söngvakeppnin um pólitík en ekki tónlist.

Til að kóróna vitleysuna gæti RÚV svo farið fram á við keppendur að þeir gefi fyrirfram upp hvort þeir hyggist taka þátt í lokakeppninni eða ekki. Þannig yrði um leið slegið upp skoðanakönnun í beinni útsendingu um viðhorf þjóðarinnar til deilna milli Ísraels og Palestínu.

Þátttaka Ísraels í Eurovision ætti ekki að koma neinum á óvart. Stríðsátökin í Gaza hafa geisað frá því í október þegar hryðjuverkamenn Hamas-samtakanna réðust á og myrtu þúsundir saklausra borgara. Þar meðal fjöldann allan af ungmennum sem sóttu tónlistarhátíð.

Tónlistarfólk sem sækir um þátttöku í Söngvakeppninni er fullmeðvitað um það og að Ísrael mun að öllu óbreyttu taka þátt í keppninni. Ef það kærir sig ekki um að taka þátt í Eurovision meðan Ísrael er meðal þátttökuþjóða þá sækir það einfaldlega ekki um að fá að taka þátt. Eins og útvarpsstjóri benti sjálfur á fyrir nokkrum dögum síðan í viðtali pínir ríkismiðillinn ekki nokkurn til að taka þátt í Söngvakeppninni.

Að sama skapi má benda á hve óheppilegt það er að útvarpsstjóri og framkvæmdastjóri fríi sig allri ábyrgð á þessari ákvörðun og setji hana í hendurnar á þeim aðilum sem ber sigur úr bítum í Söngvakeppninni. Þeir vilja greinilega ekki vera „vondi kallinn“ og setja því í hendurnar á öðrum að taka ákvörðun sem viðbúið er að verði umdeild, á hvorn vegin sem hún fer.

Það kann að vera að ungur og óharðnaður einstaklingur fái upp í hendurnar þann beiska kaleik að ákveða hvort Ísland taki þátt í sameiginlegri söngvakeppni Evrópuþjóða eða ekki. Eftir að úrslitin liggja fyrir má því ætla að vinningatriðið verði fyrir gífurlegri pressu, bæði frá þeim sem vilja sniðganga Eurovision vegna þátttöku Ísraels og þeim sem ekki geta hugsað sér Eurovision án framlags frá Íslandi.

Á endanum hlýtur það þó að vera á ábyrgð útvarpsstjóra að taka ákvörðun um hvort Ríkisútvarpið, stofnunin sem hann fær greitt fyrir að stýra, sendi fulltrúa til þátttöku í Eurovision eða ekki. Eins og fyrr segir er siguratriðinu enginn greiði gerður að sitja uppi með þá ákvörðun.

Þetta útspil er hálfvitalegt sambland af dygðaskreytingum og barnaskap. Og svo má velta fordæminu fyrir sér? Ætlar RÚV til að mynda að láta keppendur á Ólympíuleikunum taka ákvarðanir um hvort að ríkismiðillinn sýni frá því þegar þeir etja kappi í grein þar sem Ísraelsmenn eiga sinn fulltrúa? Hvað vilja tónlistarmennirnir sem kröfðust að RÚV tæki ákvörðun fyrir þeirra hönd að taka ekki þátt Eurovision? Vilja þeir draga íslensk landslið úr öllum keppnum þar sem Ísraelsmenn eiga fulltrúa?