Minn ágæti kollegi, Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar, sat fyrir svörum í stóru viðtali hér í blaðinu í síðustu viku. Þar varði hann löngum köflum í að ræða starfsemi Símans, sem honum er auðvitað frjálst. Bar hins vegar á grundvallarmisskilningi um mikilvæga þætti, sem undirrituðum er ljúft til að skýra.

Eykur samkeppni en minnkar hana ekki

Vikið var margoft að svokölluðum svörtum ljósleiðara. Síminn og allir aðrir þjónustuaðilar í fjarskiptum geta leigt aðgang að óvirkum ljósleiðara, víða um Ísland þar sem hann hefur verið lagður. Sýn kaupir sjálft svartan ljósleiðara á flestum stöðum úti á landi og hvers vegna ætti það að vera neikvætt í Reykjavík ef það er jákvætt annars staðar á landinu?

Dótturfélag Símans, Míla, veitir slíkan aðgang til allra þeirra sem vilja, þar sem það er mögulegt. Sama á við um minni net sem lögð hafa verið. Einnig er í boði að kaupa virka þjónustu um innviðina, fyrir þá þjónustuaðila í smásölu sem vilja útvista tækniþáttum og afmarka starfsemi sína að mestu við sölu- og markaðsmál. Eina félagið sem veitir ekki opinn óvirkan aðgang er stærsta ljósleiðaranetið á Íslandi, sem er í eigu borgarfyrirtækisins Gagnaveitu Reykjavíkur.

Heiðar virðist telja að með aðgangi að óvirkum ljósleiðara Gagnaveitunnar muni Síminn á einhvern hátt útiloka samkeppni annarra þjónustufyrirtækja, svo sem Sýnar. Ekkert er fjær lagi.

Stokkhólmur góð fyrirmynd

Fjölmörg þjónustufyrirtæki geta samnýtt sama ljósleiðaranetið. Ljósleiðaralagnir innihalda fjölda efnisþráða sem hver og einn hefur risavaxna bandvídd. Það er hinn virki búnaður á sitt hvorum endanum sem er takmarkandi í burðargetunni. Um allt suðvesturhorn Íslands liggja dauðir og óvirkir innviðir sem lagðir hafa verið fyrir opinbert fé. Þá má nýta langtum betur, í stað þess að þurfa að grafa upp á nýtt. Í Stokkhólmi nota til dæmis yfir 100 fjarskiptafyrirtæki svartan ljósleiðara Stokab, sem er gagnaveitufyrirtæki í eigu sænsku höfuðborgarinnar. Stokkhólmur er einn gróskufyllsti fjarskiptamarkaður heims og þar keppir fjöldinn allur af tæknifyrirtækjum með lausnir sínar ofan á óvirkum innviðum sem borgin og fleiri hafa lagt. Ef Stokab einskorðaði þjónustu sína við heildstætt virkt fjarskiptakerfi, eins og Gagnaveitan gerir á Íslandi og sem Sýn styður nú af miklum móð, væri tækniþróun niðurnjörvaðri í Stokkhólmi en raun ber vitni og neytendur fátækari.

Markaðskjör greidd fyrir aðgang

Fullyrt var í viðtalinu að Síminn vilji „endurgjaldslausan aðgang að kerfi Gagnaveitunnar“. Furðu má sæta að slík fráleit staðhæfing sé sett fram á prenti. Eins og margoft áður hefur komið fram, meðal annars í þessu blaði, mundu þau viðskipti sem Síminn hefur óskað eftir færa Gagnaveitunni hundruð milljóna króna á ári í tekjur aukalega. Reyndar er það svo að Síminn, Sýn, Nova, Hringdu og fleiri leigja nú þegar aðgang að svörtum ljósleiðara Gagnaveitunnar, en aðeins á fyrirtækjamarkaði. Af einhverjum ástæðum vilja hinir nánu samstarfsaðilar Gagnaveitan og Sýn ekki að sama opna hugmyndafræðin eigi við á heimilismarkaði. Þá styrkir Fjarskiptasjóður lagningu ljósleiðaraneta úti um land undir heitinu Ísland ljóstengt. Þar er byggt á fyrrgreindum svörtum ljósleiðara, en ekki lokuðu heildarkerfi eins og Gagnaveitan rekur. Þess utan veita sveitarfélaganet úti um allt land sama opna aðganginn, til að stuðla að góðri þjónustu og samkeppni á svæði sínu.

Misskilin hentistefna

Vodafone á Íslandi óskaði eftir aðgangi að svörtum ljósleiðara við Gagnaveituna fyrir rúmum áratug, en varð því miður ekki ágengt. Nú hefur félagið snúið við blaðinu og finnur þessu opna fyrirkomulagi allt til foráttu, einmitt eftir að Síminn leggur opnunina til. Athygli vekur að stjórnendur Vodafone í Bretlandi halda fram sömu rökstuddu skoðuninni um opinn óvirkan aðgang og íslenska Vodafone hafði fyrr. Sýn hefur nú tekið u-beygju í málflutningi sínum og grípur fast um pilsfald borgarfyrirtækisins, sem er niðurgreitt af opinberu fé. Hið breska Vodafone hefur margoft sagt að fjarskiptalausnir framtíðarinnar, svo sem 5G og IoT (internet hlutanna), byggi á margvíslegum aðgangi að innviðum og samnýtingu þeirra, ekki síst aðgangi að títtnefndum svörtum ljósleiðara. Sýn mætti gjarnan kynna sér málflutning kollega sinna handan hafsins.

Höfundur er forstjóri Símans.