Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, heilsuðu upp á Kristján Kristjánsson, þáttastjórnanda Sprengisands á Bylgjunni, síðastliðinn sunnudag. Umræðuefnin voru staða Grindvíkinga og efnahagslegar afleiðingar Reykjaneselda.

Þrátt fyrir að samtal þeirra Þórdísar og Kristrúnar hafi verið ágætt eins langt og það nær þá vakti það athygli Týs að formaður Samfylkingarinnar lýsti sig andvíga frekari sölu á hlut ríkisins Íslandsbanka á árinu.

***

Rök Kristrúnar gegn sölu á Íslandsbanka voru þau að það myndi skrúfa fyrir aðra fjárfestingu lífeyrissjóða. Þau halda ekki vatni. Það er liðin tíð að stórar fjárfestingar hangi á þátttöku lífeyrissjóða. Það er enginn skortur á fjármagni í íslensku hagkerfi og nægir að líta til verðbréfaeignar heimila og lögaðila í þeim efnum.

Týr náði því miður ekki í Guðmund Helga Björgvinsson ríkisendurskoðanda við ritun þessa pistils og þar af leiðandi þarf hann að styðjast við næstbesta mælikvarðann á virði hlutar ríkisins í Íslandsbanka: markaðsvirðið.

Miðað við það er virði hlutar ríkisins í Íslandsbanka í kringum hundrað milljarðar. Það er einmitt sú upphæð sem menn hafa miðað við þegar kemur að fasteignamati eigna í Grindavík. Það blasir við að ríkið þarf á þessu fjármagni að halda í annað en að binda það í áhætturekstur á samkeppnismarkaði.

***

Það er ekki flókið úrlausnarefni að ljúka sölu á hlut ríkisins á þessu ári og gera það með þeim hætti að söluferlið verði hafið yfir allan vafa. Það á einfaldlega að selja restina af eigninni í almennu hlutafjárútboði eins og gert var þegar fyrsta skrefið í sölu bankans var stigið. Jafnvel okkar fremstu úrtölumenn gátu ekki tortryggt það útboð.

Almennt hlutafjárútboð er vel þekkt fyrirkomulag sem bæði heimili og lögaðilar bera traust til. Fjármálafyrirtæki sjá reglulega um slík útboð á hverju ári án þess að allt umturnist í þjóðfélaginu. Aðstæður á markaði eru ágætar fyrir sölu bankans og staða ríkissjóðs ásamt aðkallandi vanda og útgjalda vegna ástandsins á Reykjanesskaga hreinlega kalla á að þessu ferli verði ýtt úr vör sem fyrst.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist í blaðinu sem kom út miðvikudaginn 31. janúar.