Skýrsla nýkjörins ríkisendurskoðanda, eða ríkisstjórnmálafræðings, var eins og Óðinn vissi. Þar kemur ekkert merkilegt fram enda var málið frá upphafi pólitískt mistök en ekki lögbrot eins og stjórnarandstaðan reynir nú að halda fram, án nokkurs rökstuðnings.

Eins og Óðinn fór yfir í ítarlegu máli í apríl þá var mikilvægt að einkavæðingin væri fumlaus. Eins var, og er, Óðinn þeirrar skoðunar að betra sé að eigur ríkisins séu öllum boðnar til sölu – öllum almenningi, þó líkur séu á því að verðið sem fæst fyrir hið selda sé líklega lægra.

***

Pólitísku mistökin voru að útskýra ekki mun betur opinberlega hvernig söluferlið færi fram. Að auki voru mistökin minniháttar. Það góða við lýðræðið er að kjósendur geta í kosningum gert upp hug sinn til frammistöðu stjórnmálamannanna. Það sama gildir um einkafyrirtækin. Viðskiptavinir dæma þau á hverjum einasta degi.

Sama gildir hins vegar ekki um ríkisstofnanir eins og Ríkisútvarpið – sem hefur nú í yfir áratug verið í grímulausum hernaði með vinstrimönnum á kostnað almennings eins og kemur svo skýrt í þessu bankasölumáli.

Er þetta eitthvað grín hjá ríkisendurskoðanda?

***

Óskiljanleg afstaða ríkisendurskoðanda

Óðinn gagnrýndi Alþingi fyrir að kjósa stjórnmálafræðing sem ríkisendurskoðanda. Það kemur svo ágætlega í ljós í skýrslunni, þar sem fram koma alveg fráleiddar vangaveltur um það skipulag sem löggjafinn hefur ákveðið að hafa um eignarhlut ríkisins í bönkum.

Í skýrslunni er fjallað um reynslu starfsmanna og stjórnar Bankasýslunnar:

Þrátt fyrir reynslu og þekkingu starfsmanna og stjórnar Bankasýslunnar á sviði umsýslu og sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum bjó stofnunin ekki yfir reynslu af tilboðsfyrirkomulagi í aðdraganda sölunnar. Stofnunin var í söluferlinu öllu afar háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu.

Er ríkisendurskoðandi, sem hefur m.a. það hlutverk að ríkið fari vel með annarra manna peninga – fjármuni skattgreiðenda – virkilega að leggja til að það hafi verið sérfræðingur í sölu á hlutabréfum með tilboðsfyrirkomulagi í starfi hjá Bankasýslunni síðustu ár. Frekar en að leita utanaðkomandi ráðgjafar, líkt og gert var. Líklega eru slíkir menn teljandi á einum fingri í landinu. Er þetta eitthvað grín hjá ríkisendurskoðanda?

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

***

Bankasýslan hefur svarað þessu. Jón Gunnar Jónsson sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í gær að ríkisendurskoðandi væri þarna á villigötum og tilboðsfyrirkomulagið væri einfaldara en venjulegt útboð.

„Hann [ríkisendurskoðandi] er að væna okkur um vanþekkingu, væntanlega út af því að hann er að gera allt of mikið úr sérstöðu tilboðsfyrirkomulagsins. Sem er ekki rétt. Tilboðsfyrirkomulagið er í raun og veru míní-útgáfa af frumútboðinu.“

En þó tilboðsfyrirkomulagið væri flóknara eða ekki, þá er sjónarmið ríkisendurskoðandans um að þetta atriði afar óskynsamlegt við rekstur ríkisins.

Þá hlýtur að vakna upp sú spurning hvort embættið Ríkisendurskoðun er séu fjölmennt lið manna með mikla sérfræðiþekkingu á málum sem hafa ekki komið upp, en munu hugsanlega einn daginn koma upp?

***

Excel villan var ekki villa

Það sem Óðni þótti hvað verst í skýrslunni, og kom fram í fréttum þegar henni var lekið, var að Bankasýslan hafi byggt úthlutun sína í útboðinu á meingölluðu excel skjali. Þvílíkir amatörar hugsaði Óðinn með sér.

En þegar skýrslan er lesin kemur hið gangstæða í ljós. Við úthlutunina var notast við excel skjal sem var án villna. Hins vegar lét Bankasýslan Ríkisendurskoðun í té rangt skjal. Það uppgötvaðist áður en skýrslan kom út. Auðvitað voru það mistök en minniháttar.

Í skýrslunni hanga skýrsluhöfundar á þessu eins og hundar á roði, það þrátt fyrir að mistökin hafi verið leiðrétt. Hvers vegna kýs ríkisendurskoðandi að gera þetta að umfjöllunarefni í skýrslunni fyrst þetta hafði verið leiðrétt?

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 17. nóvember 2022.