Týr er þakklátur fyrir snarræði starfsmanna HS Orku og HS Veitna sem tókst að koma nýrri hjáveitulögn í gagnið um helgina og tryggja þar með Suðurnesjamönnum heitt vatn.

Augljóst er að atburðir liðinna daga og þeirra sem undan gengu vegna Reykjaneselda kalla á umræðu og aðgerðir til að tryggja orkuöryggi og aðgengi að heitu vatni. Þessir atburðir hafa afhjúpað þá staðreynd að Íslendingar hafa flotið sofandi að feigðarósi í orkumálum. Ofstopafólk hefur komið í veg fyrir uppbyggingu í virkjanamálum og það sama á við um viðhald og uppbyggingu orkuflutningskerfis landsins.

***

Týr varð þess var um helgina að málsmetandi fólk lýsti yfir þeirri skoðun að það hefði eitthvað með eignarhald á HS Orku og HS Veitum að gera að hraun hafi runnið yfir heitavatnslögnina sem sér hinum fornfrægu samfélögum á útnesjum fyrir heitu vatni.
HS Orka er í eigu sjóða í stýringu Ancala Partners annars vegar og íslenskra lífeyrissjóða hins vegar. HS Veitur er í eigu Reykjanesbæjar annars vegar og íslenskra fjárfesta hins vegar. Þessi fyrirtæki hafa ekki reynt að koma í veg fyrir uppbyggingu á orkuinnviðum á undanförnum áratugum. Þvert á móti.

***

Hins vegar má færa rök fyrir því að það hafi Orkuveita Reykjavíkur gert í stjórnartíð Bjarna Bjarnasonar sem nú situr í fagráði Landverndar. Orkuveitan er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar.

Eins og lesa má um í fjármálaáætlun Orkuveitunnar eru engin áform um að bora eftir heitu vatni á næstu árum þrátt fyrir að íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi verið minntir rækilega á skort á heitu vatni undanfarin ár. Því meiri áhersla er lögð á gæluverkefni á borð við Ljósleiðarann og Carbfix sem hafa ekkert með grunnhlutverk Orkuveitunnar að gera.

Á sama tíma hefur OR verið notuð sem gullgæs sem fegrar fjárhagsstöðu borgarinnar í augum þeirra sem ekki kunna að lesa ársreikninga. Þeir eru margir. Það hversu háð borgin hefur verið arðgreiðslum hefur leitt til þess að viðhald og fjárfesting hefur verið algjörlega vanrækt hjá Orkuveitunni.

Að því sögðu snúast þau vandamál og áskoranir sem Íslendingar standa nú frammi fyrir vegna Reykjaneselda ekki um með hvaða hætti eignarhald á orkufyrirtækjum er.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.