Samfylkingin hefur gengið nokkuð fast í takt undanfarna mánuði eftir að helstu forystumenn flokksins fylktu sér að baki Kristrúnu Frostadóttur fyrrum aðalhagfræðingi Kviku og milljónamæringi.

Helstu stuðningsmenn Kristrúnar eru Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Ólafur Ragnar Grímsson rakarasonur frá Ísafirði.

Þremenningarnir eru óskaplega tengd. Össur kynnti Ingibjörgu og Hjörleif eiginmann hennar en doktor Árný Sveinbjörnsdóttir, eiginkona Össurar, er systir Hjörleifs. Svo urðu vinslit milli Össurar og Ingibjargar þegar Ingibjörg skoraði Össur á hólm um formannsembættið í Samfylkingunni árið 2004.

Samfylkingunni varð ekki kápan úr því klæðinu. Flokkurinn fékk 31,0% í kosningunum árið 2003 þegar Össur var formaður en 26,8% fjórum árum síðar þegar Ingibjörg var formaður.

Ólafur Ragnar er fóstbróðir Össurar og voru þeir vopnabræður í Alþýðubandalaginu, sem áður hét Sósíalistaflokkurinn og þar á undan Kommúnistaflokkurinn.

Össur tók við að Ólafi sem ritstjóri Þjóðviljans sáluga en Ólafur varð síðar formaður Alþýðubandalagsins. Rétt er þó að taka fram að þjóðir hafa ekki vilja, heldur einstaklingar.

Þeir hafa alla tíð verið óskaplega góðir vinir og sumir segja að Össur sé eini maðurinn á jörðinni sem geti átt innilegt samband við Ólaf. Að Ólafur okkar felli niður varnarmúrana gagnvart Össuri einum, sem er auðvitað með skemmtilegri mönnum eins og allir vita.

Meira segja er Össur svo léttur að hann kallaði sig eitt sinn heiðurspírata. Hann hefur þó ekki gert það síðan Píratarnir fóru að læsa sig inni á klóetum á skemmtistöðum langtímum saman.

En. Hrafnarnir velta því fyrir sér hvort óeining sé komin í hópinn. Össur sagði á fimmtudag á Rauða Ljóninu að besti borgarstjóri Reykjavíkurborgar frá upphafi hafi verið Jón Gnarr. Upptaka að atvikinu er neðst í pistlinum.

Þetta var auðvitað algjört grín hjá Össuri enda Jón Gnarr úti á túni allan sinn borgarstjóraferil.

Þetta hefur án nokkurs vafa farið fyrir brjóstið á Ingibjörgu Sólrúnu og fyrrum borgarstjóra. Þó augljóst sé að Össur hafi þarna verið að gantast svolítið. Það má nú stundum.

Spurningin er hins vegar hvort þetta muni koma niður einingunni í stuðningsbandalaginu, hinu svokallaða alþýðubandalagi, og þar með skaði það fylgi Samfó í næstum kosningum.

Það kemur auðvitað í ljós.

Rauða Ljónið

Síðast rataði heimsókn Össurar á Rauða ljónið í fjölmiðla árið 1997 þegar Alþýðuflokkurinn, blessuð sé minning hans, hélt kosningahátíð vegna þingkosninganna í Bretlandi.

Verkamannaflokkurinn vann sigur og voru þeir glaðirbeittir félagarnir Már, stundum nefndur Maó, Össur, Mörður, en ekkert verra uppnefni er víst til, og Sighvatur.