Straumlínulagaði og fjórhjóladrifni rafbíllinn Ioniq 6, sem Hyundai á Íslandi kynnir í sumar, kom, sá og sigraði á verðlaunahátíðinni World Car 2023 sem haldin var í New York fyrir páska.

Ioniq 6 hreppti þrenn aðalverðlaun á hátíðinni þegar hann var í senn kjörinn Heimsbíll ársins, Hönnun ársins og Rafbíll ársins 2023. Verðlaunin eru þau sömu og Hyundai Ioniq 5 hlaut á síðasta ári hjá World Car.

Ioniq 6 er boðinn frá 229 hestöflum til 325 hestafla eftir útfærslum þar sem velja má um akstur í afturhjóladrifi eða aldrifi. Bíllinn er búinn rúmlega 77 kWh rafhlöðu með 614 km drægni og er meðalorkunotkun á ekinn kílómetra um 14,3 kWh sem er með því besta gerist á rafbílamarkaði enda vindstuðullinn aðeins 0,21. Snerpa úr kyrrstöðu í 100 km/klst er 5,1 sekúndur.

Hleðslukerfi Ioniq 6 styður við bæði 400-V og 800-V hleðslustöðvar og getur rafkerfið einnig tekið við 400 V hleðslu án viðbótaríhluta eða millistykkja. Má sem dæmi nefna að á 350 kW hleðslustöð getur Ioniq 6 hlaðið frá 10 til 80 prósenta á aðeins 18 mínútum.

Ólíkur öðrum rafbílum

Heildarlengd Ioniq 6 er rúmir 4,8 metrar, breidd um 1,9 m og hæð yfirbyggingarinnar um 1,5 metrar. Hjólhafið er rétt um þrír metrar sem veitir gott rými fyrir aukin þægindi í farþegarýminu, þar sem endurunnin og mild efni eru allsráðandi.

Val er um 18 eða 20 tommu felgur og í heild endurspeglar hönnunin, ekki síst straumlínulögunin og tvær vindskeiðar að aftan, sportlegt og sérkennandi útlit sem gerir Ioniq 6 í senn ólíkan öðrum nýjum rafbílum á markaðnum um leið og skyldleikinn við Hyundai Coupe frá 2002-2010 leynir sér ekki á teikniborði hönnuðanna.

Nánari grein verður gerð fyrir öryggis- og þægindabúnaði Ioniq 6 þegar nær dregur frumsýningu hjá Hyundai á Íslandi í júní.

Hyundai á Íslandi verður með rafbílasýningu í dag, laugardag í Kauptúni, þar sem IONIQ 5, verður í salnum og tiltækir í reynsluakstur auk þess sem IONIQ 6, verður kynntur fyrir gestum í máli og myndum. IONIQ 6 verður frumsýndur í júní.