Sala á nýjum fólksbílum í október dróst saman um 10%, sé miðað við sama mánuð í fyrra. Samdrátturinn á fyrstu tíu mánuðum ársins nemur þremur prósentum miðað við sama tíma í fyrra. Á fyrstu 10 mánuðum ársins hafa verið nýskráðir 6685 bílar, eða um 205 færri en í fyrra.

Í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu segir að frá ágúst síðastliðnum hafi dregið jafnt og þétt úr sölu nýrra bíla.  Séu það vonbrigði þar sem flestir töldu sig sjá jákvæð teikn á lofti sem því miður hefur ekki reynst rétt.

„Endurnýjunarþörfin á bílaflota landsmanna er mikil enda meðalaldur bíla sá elsti hér á landi ef tekið er mið af öðrum Evrópulöndum.  Ekki er það eftirsóknarvert sæti í ljósi öryggis og mengunar,“ segir Özur Lárusson framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.