Finnska fyrirtækið Rovio, sem er á bakvið hinn gríðarlega vinsæla Angry Birds tölvuleik og allt sem honum tengist, tilkynnti í dag að það muni segja upp 260 manns. Fyrirtækið sagði upp 130 manns í fyrra og missa því tæplega 400 manns vinnuna á einu ári hjá fyrirtækinu.

Þrátt fyrir góðan árangur Angry Birds 2 tölvuleiksins, sem hefur verið halað niður 50 milljón sinnum á einum mánuði frá útgáfu samkvæmt Rovio, þá hefur fyrirtækið ákveðið að endurskipuleggja sig með tilheyrandi fækkun starfsmanna.

Uppsagnirnar ná til hinna ýmsu aðila um allt fyrirtækið, að frátöldum þeim sem eru að vinna að framleiðslu Angry Birds kvikmyndarinnar í Bandaríkjunum og Kanada.

Forstjórinn Pekka Rantala viðurkenndi að um erfiða ákvörðun væri að ræða en að fyrirtækið teldi þessar aðgerðir nauðsynlegar upp á framhaldið að gera. Árið 2014 lækkuðu tekjur fyrirtækisins um 9 prósent og hagnaður af venjulegri starfsemi féll um 74% eftir að fólk missti áhuga á varningi tengdum Angry Birds.