Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 7,9% í febrúar, en árshækkun vísitölu neysluverðs í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri síðan í janúarmánuði árið 1982, þegar hún mældist 8,4%. Verðbólgan hefur nú mælst yfir 6% fimm mánuði í röð. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal .

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 6,4% í febrúar, samanborið við 6% í desember. Kjarnaverðbólgan hefur ekki mælst meiri síðan árið 1982.

Verðhækkanir voru í flestum geirum og hækkaði matarverð til að mynda um 7,9% milli ára. Húsnæðiskostnaður hækkaði um 4.7% og orkuverð um 25,6%. Fatnaður hækkaði auk þess í verði um 6,6% á milli ára.

Nýir bílar hækkuðu um rúm 12% á milli ára og notaðir bílar um rúm 41%, en mikill skortur á hálfleiðurum hjá helstu bílaframleiðundum hefur hægt á framleiðslu nýrra bíla. Því hefur eftirspurn aukist gríðarlega eftir notuðum bílum.

Í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu hefur verð á hrávörum, eins og hráolíu, hveiti og málmum, hækkað ört. Þannig hefur bensínverð vestanhafs hækkað um tæp 40% á milli ára.

Seðlabanki Bandaríkjanna mun funda dagana 15.-16. mars, en Jay Powell seðlabankastjóri áætlar að bankinn muni hækka vexti um 25 punkta. Greiningaraðilar spá fjölmörgum vaxtahækkunum á árinu.