Frá því að 154. þing hófst í haust hafa 39 stjórnarfrumvörp verið samþykkt, þar af 19 frá því að Alþingi kom aftur saman eftir jólahlé í janúar. Samkvæmt starfsáætlun fer þingfrestun fram um miðjan júní.

74 stjórnarfrumvörp bíða enn afgreiðslu og eru flest þeirra skammt á veg komin. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, sem var uppfærð í upphafi árs, hafa á sjötta tug frumvarpa ekki enn verið lögð fram.

Þingsköp Alþingis kveða á um að ný þingmál sem eiga að koma á dagskrá fyrir sumarhlé þurfi að berast skrifstofu Alþingis fyrir lok marsmánaðar.

Vilji ráðherrar leggja fram frumvarp eftir það þarf að leita afbrigða en talað er um að afbrigði sé veitt ef tveir þriðju þeirra þingmanna sem greiða atkvæði samþykkja uppástungu forseta Alþingis eða formanns þingflokks um að bregða út af þingsköpum.

23 þingfundir eru á dagskrá frá og með deginum í dag fram til föstudagsins 14. júní, þegar þingi verður frestað.

Af þeim stjórnarfrumvörpum sem hafa verið lögð fram eru 17 sem bíða 1. umræðu, 54 eru í nefnd, tvö bíða 2. umræðu og eitt bíður 3. umræðu. Alls hafa 39 frumvörp verið samþykkt. Til viðbótar við stjórnarfrumvörpin hafa 126 þingmannafrumvörp og tvö nefndarfrumvörp verið lögð fram.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.