Auðkýfingurinn og áhrifafjárfestirinn Bill Ackman segir vogunarsjóð hans, Pershing Square, hafa selt hlutabréf í kaffikeðjunni Starbucks og fjárfest þess í stað í pítsukeðjunni Domino's Pizza. Vogunarsjóðurinn á að hans sögn tæplega 6% hlut í pítsukeðjunni.

Ackman segir sjóðinn hafa selt bréfin í Starbucks eftir að félagið hafði rétt rösklega úr kútnum eftir að faraldurinn skall á. Á sama tíma keypti sjóðurinn í Domino's, en gengi bréfa pítsukeðjunnar höfðu þá lækkað töluvert á markaði.

Haft er eftir Ackman að þeir sáu ekki augljósar ástæður fyrir hinni snörpu lækkun og að í því hafi falist tækifæri til að skipta Starbucks út fyrir Domino's. Hann hafi þó ekki fengið jafn stóra sneið og hann óskaði sér en þó rétt undir 6% eignarhlut.

Hann segist veðja á Domino's vegna þess að þeir hafi verið leiðandi í tækniþróun og heimsendingum. Þeir eigi heimsendingakerfi sitt sjálfir og þurfi því ekki að treysta á þriðja aðila á borð við DoorDash.

Fjárfestirinn hefur lagt mikið undir viðspurnu veitinga-, smásölu- og hótelgeiranna. Á meðal þekktra fyrirtækja sem hann hefur fjárfest í eru Lowe's, Hilton og Chipotle. Bréf í Domino's hækkuðu nokkuð eftir að hann tjáði sig um fjárfestinguna en bréf í Starbucks lækkuðu aftur á móti.

Eignarhlutur sjóðsins í Starbucks var að verðmæti um eins milljarðs dala í lok síðasta árs, en bréf kaffikeðjunnar hækkuðu um 20% á síðasta ári, þrátt fyrir að hafa tekið dýfu í upphafi faraldurs. Bréf Domino's hafa hækkað um yfir 13% það sem af er ári.