Temasek, þjóðarsjóður Singapúr, hefur afskrifað 275 milljóna dala fjárfestingu sína í rafmyntakauphöllinni FTX, eða sem nemur 39,6 milljörðum króna, að fullu.

Sjóðurinn keypti innan við 1% hlut í FTX International fyrir 210 milljónir dala, eða um 30,2 milljarða króna, og innan við 1,5% hlut í bandarísku dótturfélagi þess fyrir 65 milljónir dala eða um 9,4 milljarða króna í tveimur fjárfestingarlotum frá október 2021 til janúar 2022.

Fjárfestingin í FTX vó samtals 0,09% af 293 milljarða dala eignasafni Temasek, að því er hann greindi frá í tilkynningu í dag.

„Það er ljóst af þessari fjárfestingu að mögulega hafi trú okkar á ákvörðunum, dómgreind og leiðtogahæfni Sam Bankman-Fried [forstjóra FTX], sem má rekja til samskipta okkar við hann og viðhorfa annarra í hans garð, verið misráðin,“ segir þjóðarsjóðurinn.

Auk Temasek hefur tæknisjóður SoftBank, Vision Fund, og Sequoia Capital afskrifað fjárfestingar sínar í FTX að fullu.

FTX, sem er ein stærsta rafmyntakauphöll heims, sótti um greiðslustöðvun á föstudaginn síðasta, sem jafnan er undanfari gjaldþrotaskipta vestanhafs.