Kínverska tryggingarfélagið Anbang tilkynnti í morgun að það hefði hætt við tilboð sitt í Starwood hótel-keðjuna. Starwood á meðal annars hótel-keðjurnar Sheraton, Westin and St Regis.

Anbang gaf nýtt tilboð í Starwood á þriðjudaginn sl. þar sem fyrra tilboð var hækkað í 14 milljarða dala, eða um 1.750 milljarða króna, en félagið hefur átt í verðstríði við Marriot hótel-keðjuna um kaup á Starwood.

Það kemur því á óvart að félagið hafi nú dregið tilboðið til baka. Einu opinberu útskýringar félagsins voru að ýmsar markaðslegar ástæður hafi áhrif.

Að sögn The Wall Street Journal þá vekur þetta upp spurningar um getu kínverskra fyrirtækja til að ljúka við yfirtökur af þessari stærðargráðu, en fjöldi kínverskra fyrirtækja hefur reynt stórar yfirtökur á erlendum fyrirtækjum undanfarið.